Bréf til foreldra vegna stöðunar í Covid - 19 smitum í landinu og viðbragða vegna þess

 

Ágætu foreldrar / forráðamenn

Gleðilegt nýtt ár með þökk fyrir gott og árangursríkt samstarf í skóla- og frístundastarfi á liðnu ári.

Það fer ekki framhjá neinum þessa dagana að enn á ný stöndum við frammi fyrir áskorunum vegna Covid -19 og nú starfa leik- og grunnskólar og frístundastarf eftir reglugerð nr. 1484 / 2021, Reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Í skóla- og frístundastarfi er lögð rík áhersla á að halda starfseminni sem mest í föstum skorðum meðan forsendur eru til þess en ljóst er að vegna mikillar útbreiðslu smita í faraldrinum þarf að gera ráð fyrir að skerða þurfi starfsemi með stuttum fyrirvara.

Til þess að vernda starfið sem best þarf að vera samstillt samstarf milli forráðamanna og skóla- og frístundastarfs og virða þarf þau mörk sem þurfa að vera innan starfseminnar til að ná þeim markmiðum. Í ljósi aðstæðna er mikilvægt að árétta að stjórnendur hafa heimild til frekari takmarkana eftir aðstæðum hverju sinni.

Ef foreldrar eða aðstandendur koma inn í skóla og frístundarstarf þurfa þeir að bera grímur og huga vel að persónulegum sóttvörnum.

Varðandi fjarveru barna biðjum við forráðamenn um að tilkynna veikindi og þar komi fram hvort þau eru vegna Covid – 19 eða annarra orsaka.

Á fundi sínum í dag föstudaginn 7. janúar, samþykkti Almannavarnanefnd Vesturlands eftirfarandi tilmæli:

„Í ljósi fjölgunar Covid-19 smita undanfarið í samfélaginu, áréttar almannavarnanefnd Vesturlands þau tilmæli sóttvarnaryfirvalda að fólk hugi sérstaklega að því að mæta ekki til vinnu eða í skóla ef það finnur fyrir einkennum eða það gruni að það sé með smit. Þetta á jafnt við þá sem eru bólusettir og þá sem eru það ekki.

Ef þú finnur fyrir einkennum, er mikilvægt að halda sig heima og skrá sig í COVID PCR-próf í samræmi við leiðbeiningar á covid.is. Þetta á jafnt við börn sem fullorðna. Eins og áður er mikilvægt að huga vel að eigin sóttvörnum, svo sem þvo og spritta hendur og virða nálægðarmörkin.“

 

Með samstilltu samstarfi eru meiri líkur á því að hægt verði að halda starfsemninni gangandi.