Okkar áherslur

Tónlist í Vallarseli

Í leikskólanum Vallarseli hefur verið lögð aðaláhersla á tónlistarstarf með börnunum.  Leikskólinn hafði starfandi  tónlistarkennara sem hélt utan um tónlistarstarfið með öllum börnum leikskólans frá árunum 1998 – 2008. Fyrstu árin var starfið í höndum Bryndísar Bragadóttur en frá 2006-2008 var það í höndum Katrínar Valdísar Hjartardóttur. Haustið 2009 urðu þær breytingar að ekki er lengur starfandi tónlistakennari við leikskólann heldur er tónlistarstjóri á hverri deild sem sér um skipulagningu og framkvæmd á tónlistinni á sinni deild. Kennslan er þannig sett upp að unnið er í litlum hópum og breytilegt eftir aldri við hvaða viðfangsefni börnin kljást við. Líkt og gefur að skilja er unnið með einfaldari verkefni með yngstu börnunum en þau verða flóknari og flóknari eftir því sem börnin eru eldri. Hópavinna fer fram einu sinni í viku og síðan er unnið áfram með verkefnin inni á deildum út þá vikuna.

Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla á tónlistaruppeldi í leikskóla að stuðla að því að barn þroski með sér

 • næmi fyrir hljóðum, hreyfingu og hrynjanda
 • frumkvæði og frjálsa, skapandi tjáningu og túlkun á tónlist

Við viljum stuðla að sem mestum alhliða þroska hvers barns og notum við tónlistina sem verkfæri til þess. Kennt er í gegnum leikinn, þannig að börnin eru ekki endilega meðvituð um að það sé verið að kenna ákveðna hluti, í stað þess upplifa þau skemmtilega tónlistarstund. Reynt er að virkja sérhvern einstakling þannig að allir fái sem mest út úr hverri kennslustund. Þjálfunin inn á deildum yfir vikuna er mjög mikilvægur þáttur í starfinu og leggur grunninn að því að hægt sé að leggja inn nýja hluti, sem byggja ofan á það sem áður var þjálfað. Í kennslunni er m.a. unnið með námsefnið Klapp Stapp. Lykilorðin í tónlistarstarfinu eru fjölbreytni, gleði og gaman.

Við nýtum okkur reynsluna af því að starfa með báðum tónlistarkennurum okkar og tókum það besta frá báðum. Mikil reynsla er í leikskólanum og vorum við spenntar að standa á eigin fótum. Við skipuleggjum okkur fyrirfram og hittast tónlistastjórar reglulega til að meta tónlistarstarfið.  Við byggjum tónlistartíma upp á þann hátt að við byrjum á söng, síðan er unnið með hljóðfæri og er sú vinna meginvinnan í tónlistartímanum. Síðan endum við á leik sem m.a. byggist á hreyfingu, hlustun, takti, rytma o.frv.  Þegar við byrjum að leggja inn hljóðfæravinnu er byrjað á því einfalda, eggjum, stöfum og trommum. Einnig notum við líkamann, t.d. að slá á lær, stappa eða klappa. Síðan eftir því sem börnin þroskast og verða hæfari bætast fleiri hljóðfæri við eins og tréspil, klukkuspil, tréspil, þríhorn og mörg fleiri smáhljóðfæri.

Viðfangsefni tónlistarstarfsins eru m.a.: söngur, hljóðfæri og hlustun.

Söngur

Boðið er upp á fjölbreytt val hreyfisöngva sem tengjast gjarnan líkamanum og reynsluheimi barnanna. Reynt er að tengja þá því sem verið er að vinna með í leikskólanum (þema) hverju sinni. Börnin læra einnig þulur og nafnaleiki, hefðbundin þjóðlög, bæði íslensk og erlend, hreyfisöngva og söngva með flóknari textum. Mikið er notast við undirleik við söng barnanna sem er þá samþættur með hljóðfæra-undirleik barnanna sjálfra.

Undanfarin misseri höfum við lagt mikla áherslu á eldri íslensk dægurlög sem hafa gert mikla lukku.

 

Hljóðfæri

Þegar unnið er með hljóðfæri er byggt ofan á fyrri þekkingu barnanna og bætt ofan á hana. Ásláttarhljóðfæri eru notuð til að þjálfa tilfinningu fyrir púls og því að spila á slagverk í hópi. Mikilvægt er að kenna hvenær á að bíða og hvenær má spila t.d. með stoppleikjum og verða verkefnin flóknari eftir því sem börnin eldast. Lögð er áhersla á markvissa rytmaþjálfun þar sem börnunum er kennt að þekkja muninn á púls og hryn. Farið er í hreyfileiki þar sem ,,líkamshljóð”(t.d klapp og ásláttur á læri) eru notuð og/eða hljóðfæri. Árlega fá elstu börnin hljóðfærakynningu frá kennurum og nemendum úr Tónlistarskóla Akraness.  Sú kynning er í tengslum við ferð þeirra á sinfóníutónleika barnanna.  Þá eru þau búin að fá innsýn inn í þau hljóðfæri sem leikið er á þar.  Leikskólinn á auk þess mjög vandað og fjölbreytt safn hljóðfæra sem notuð eru markvisst í kennslu barnanna auk þess sem börnin þjálfast á því að spila á slagverk í hópi og því að koma fram á tónleikum.

Hlustun

Hlustun er m.a. notuð til að kenna grunnhugtök í tónlist. Þar eru börnin að læra að þekkja lík og ólík hljóð, kynnast ólíkum hljóðfærum, menningu og söngvum. Hlustunin er ekki endilega tengd hreyfingu en börnin læra leiki sem byggja á því að þekkja einföld hljóð auk þess að hlusta á fjölbreytt tóndæmi sem gjarnan eru þá tengd hreyfingum og dansi.

Tónleikar:

Skapast hefur sú hefð að halda tónleika með elstu deild Vallarsels. Á vordögum 2008  vorum við með tónleika í Tónbergi með „litlu lúðrasveit “ Tónlistarskólans undir stjórn Önnu Nikulásardóttur og Katrínar Valdísar Hjartardóttur. Á tónleikunum var frumflutt verkið Risaeðlusvítan eftir Paul Jennings.

Á Vökudögum  2008 var elsta deildin með tónleika þar sem  m.a. var á dagskrá  Þúsaldaljóð eftir bræðurna Sveinbjörn og Tryggva Baldvinssyni ásamt fleiri lögum en þá voru engir samstarfsaðilar því  í leikskólanum voru tvær elstu deildir og fylltu þau sviðið.

Á Vökudögum 2009 vorum við með tónleika með Hljómi, kór eldri borgara á Akranesi,  undir stjórn Katrínar Valdísar Hjartardóttur tónlistakennara og Aðalheiðar Þráinsdóttur, deildastjóra.

Við leggjum mikinn metnað í tónleikana okkar og fer mikill undirbúningur í þá. Það kemur mörgum á óvart hversu langa og flókna texta börnin geta lært og sungið. Á svona tónleikum fylgir því að mikill agi þarf að vera á hópnum og vita allir hvað til þeirra er ætlast.

Leikur í Vallarseli

Leikurinn í allri sinni fjölbreytni er einn af aðaláherslum  Vallarsels. Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og ein mikilvægasta náms- og þroskaleið barnanna. Í leiknum tjáir barnið tilfinningar sínar og fær útrás fyrir þær.  Leikurinn er sjálfstjáning barnsins og besta leiðin til þroska og þekkingar.  Barnið aflar sér reynslu og dýrmætrar upplifunar í leiknum.  Hann greiðir fyrir vexti og þroska.  Það er fyrst og fremst í leik sem börn eignast vini.  Leikurinn er kennluaðferð í leikskólastarfinu og námsleið barnsins.
Hann er eðlilegasta lífstjáning allra barna.

Val:

Valið er rammi utan um frjálsa leikinn. Þar geta börnin valið sér þau svæði sem þau vilja leika sér á. Við bjóðum alltaf uppá sömu svæðin en reynum að  hafa fjölbreyttan efnivið.  Valið fer fram daglega og jafnvel tvisvar á dag.

Markmiðin með vali eru m.a.:

√     að hafa val um hvar er leikið og við hverja

√     að leika sér í litlum hóp

√     að velja sér efnivið við hæfi

√     að efla samstöðu og samvinnu í hópnum

√     að börnin læri að bíða eftir að röðin komi að sér

√     að barnið læri að standa við það sem það velur

Hvers vegna tónlist?

Við viljum stuðla að sem mestum alhliða þroska hvers barns og notum við tónlistina sem verkfæri til þess. Kennt er í gegnum leikinn, þannig að börnin eru ekki endilega meðvituð um að það sé verið að kenna ákveðna hluti, í stað þess upplifa þau skemmtilega tónlistarstund. Reynt er að virkja sérhvern einstakling þannig að allir fái sem mest út úr hverri kennslustund. Þjálfunin inn á deildum yfir vikuna er mjög mikilvægur þáttur í starfinu og leggur grunninn að því að hægt sé að leggja inn nýja hluti, sem byggja ofan á það sem áður var þjálfað. Í kennslunni er m.a. unnið með námsefnið Klapp Stapp. Lykilorðin í tónlistarstarfinu eru fjölbreytni, gleði og gaman.

Við byggjum tónlistartíma upp á þann hátt að við byrjum á söng, síðan er unnið með hljóðfæri og er sú vinna meginvinnan í tónlistartímanum. Síðan endum við á leik sem m.a. byggist á hreyfingu, hlustun, takti, rytma o.frv.  Þegar við byrjum að leggja inn hljóðfæravinnu er byrjað á því einfalda, eggjum, stöfum og trommum. Einnig notum við líkamann, t.d. að slá á læri, stappa eða klappa. Síðan eftir því sem börnin þroskast og verða hæfari bætast fleiri hljóðfæri við eins og tréspil, klukkuspil, þríhorn og mörg fleiri smáhljóðfæri.

Viðfangsefni tónlistarstarfsins eru m.a.: söngur, hljóðfæri og hlustun.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrif tónlistarnáms á heila barna. Niðurstöður hafa sýnt að tónlistarnám hefur varanleg áhrif á heila barna, jafnvel þó að námið hafi aðeins staðið í stuttan tíma. Einnig kemur fram að því yngri sem börnin eru þeim mun styttri tíma þarf til þess að gera breytingar á heilum barna og hefur verið sýnt fram á breytingar hjá börnum niður í sex mánaða aldur. Rannsakendur deila þó um áhrif þessa breytinga á líf barnanna. Þó er óumdeilanlegt og hafa rannsóknir staðfest að heyrnaskyn barna sem stunda tónlistarnám er mun nákvæmara en þeirra sem ekki stunda tónlistarnám. Þeir einstaklingar sem hafa gott heyrnaskyn eiga meðal annars auðveldara með að heyra talað mál í hávaða, eiga auðveldara með að greina málhljóð og þar af leiðandi eiga þeir einstaklingar auðveldara með lestur og lestrarnám. Söngur og söngnám virðist einnig hafa þessi áhrif en þó ekki jafn mikil og hljóðfæranám.

Tónlist getur því haft margvísleg jákvæð áhrif á barnið en er fyrst og fremst skemmtilegt tæki til að stuðla að alhliða þroska.

Hvernig vinnum við með tónlistina?

Fyrsta ár:

Fyrsta árið í leikskólanum fer að miklu leyti í að vinna með líkamann. Börn læra tónlist eins og þau læra tungumál, þau hlusta og prófa sig síðan áfram. Fyrstu skrefin eru yfirleitt þau að börnin „söngla“ og hreyfa sig (dansa) með tónlistinni. Þegar sungnir eru söngvar með hreyfingum byrja börnin oft að gera hreyfingar með án þess að söngla Á fyrsta árinu reynum við að virkja líkamsvitund barnanna með því að hreyfa okkur með tónlistinni til dæmis klappa, stappa, slá á læri/maga/hendur og dansa. Samhliða auknum málþroska byrjum við að vinna með söngtexta og þulur.

Unnið er með einföld hljóðfæri fyrsta árið til dæmis egg, hristur, stafi, bjöllur og trommur.

Dæmi um vinnu (oft mikill munur á hópnum á haustönn og vorönn):

 • Syngja lög með einföldum hreyfingum sem börnin geta fylgt eftir
 • Spila lag af disk sem börnin geta spilað með (ekki kröfur um að stoppa í miðju lagi eða spila í takt)
 • Syngja lög með einföldum textum
 • Fara með einfaldar þulur
 • Virkja hlustun meðal annars með því að láta þau hreyfa sig/spila þegar tónlist er í gangi og stoppa/hætta þegar tónlistin stoppar
 • Hreyfileikir: Á bókasafninu er mappa sem heitir „Dansar og hreyfileikir fyrir leikskólabörn“ í henni eru leiðbeiningar fyrir 30 leiki og geisladiskur með. Leikirnir eru vel útskýrðir og henta öllum aldri

Dæmi um verkefni:

 • Göngum upp gilið
 • Góðan dag kæra jörð
 • Gulur, rauður, grænn og blár
 • Epli, epli (klappa með)
 • Þumalfingur er mamma

Þau geta í raun spilað á hljóðfærin með hvaða lagi sem er og nóg að gera kröfur á að þau byrji að spila þegar tónlistin er í gangi og hætti þegar tónlistin stoppar

Annað ár:

Samhliða auknum þroska og aldri eru gerðar auknar kröfur á börnin. Textavinnan eykst og verður smám saman erfiðari á öðru ári sem og hljóðfæravinnan. Þá er hægt að taka inn fleiri hljóðfæri og kenna þeim nöfnin á hljóðfærunum. Eins er hægt að virkja betur hlustun meðal annars með því að fara í einfalt hljóðfærabingó.

Dæmi um vinnu:

 • Söngur með hreyfingum (gera þá þær kröfur að börnin syngi samhliða hreyfingunum, það er að segja að þau geri bæði í einu)
 • Fara með kvæði og þulur (smám saman flóknari texti)
 • Söngur á öðrum tungumálum (t.d. yo haudu, bela mama, meistari jakob á pólsku o.fl)
 • Söngur með einföldu spili (mörg eiga erfitt með að gera bæði í einu og því ágætt að skipta hópnum upp, annar syngur á meðan hinn spilar, eða láta börnin spila t.d. bara í viðlagi)
 • Spila eftir spjöldum (Hægt að byrja á því að hafa spjöld sem segja bara til um hvort þau eigi að spila eða ekki: allir spila og allir hætta. Síðan er hægt að láta þau spila þegar þeirra spjald kemur upp, byrja einfalt). Þetta krefst mikillar athygli og ágætt að byrja rólega á þessu.
 • Virkja hlustun með því að spila/dansa/syngja á ákveðnum tíma og stoppa þegar ætlast er til þess. Eins að láta þau dansa/ganga um gólf í takt við tónlist eða trommuslátt og þegar tónlistin stoppar eiga þau að stoppa
 • Í textavinnu er gott að nota leikföng og myndir til þess að læra texta, börnin eiga oft auðveldara með að læra textann þegar hann verður sjónrænn

Dæmi um verkefni:

 • Meistari Jakob á nokkrum tungumálum
 • Góðan dag kæra jörð
 • Guttavísur
 • Ég á gamla frænku
 • Ég er furðuverk
 • Við lemjum ekki neinn
 • Krummi krunkar úti
 • Þulur og kvæði: þumalfingur er mamma..
 • Spila við hvaða lag sem er (t.d. eftir spjöldum, eða gefa merki um hvenær eigi að byrja/stoppa)

Með öllum sönglögum er hægt að hafa einfalt „undirspil“ þar sem krakkarnir spila sjálfir, annað hvort í hópum eða sem ein heild. Spila allt lagið eða hluta af því..hvernig sem er.

 

Þriðja ár:

Á þriðja ári er hægt að byrja að gera þá kröfu á krakkana að þau spili saman í takt, það krefst oft mikilla æfinga. Það getur reynst mörgum erfitt að samræma heyrn og hönd. Þá er ágætt að byrja á því að nota bara líkamann t.d. klapp og stapp (nota námsefnið klapp-stapp). Smám saman er hægt að fá þau til að spila samtaka á hljóðfæri, það er ágætt að æfa þetta í minni hópnum fyrst með hermispili. Eins er hægt að byrja að kenna krökkum muninn á því að syngja/spila sterkt og veikt í fyrstu er ágætt að hafa mikinn mun þarna á milli (veikt verður þá hvísla og sterkt verður mjög sterkt).

Hægt er að gera kröfu um að spila ákveðna tóna á tréspili/tónum en þá með því að fjarlægja tónana sem liggja að. Þá ættu þau að þekkja nöfnin á þeim hljóðfærum sem eru til og einnig að vita hvernig þau hljóma (hljóðfærabingó er tilvalið til þess að læra að tengja saman nafn á hljóðfæri, hvernig það lítur út og hvernig það hljómar). Þá ættu börnin einnig að kunna réttu handtökin á hvert hljóðfæri.

Dæmi um vinnu:

 • Söngur – textavinna (syngja sterkt/veikt – og fallega)
 • Spila eftir spjöldum (gera þá kröfu um að þau spili í takt – það getur tekið tíma!!)
 • Spila og syngja á sama tíma (spila þá í takt og verða að syngja þó þau séu að spila líka – getur reynst mörgum erfitt að gera bæði í einu)
 • Fjölbreytt hljóðfæraval – núna er hægt að taka fram öll hljóðfærin í húsinu og ekki hika við að leyfa þeim að nota píanóið og hljómborðið (þó varla hægt að gera kröfu um að þau spili ákveðna tóna á þau hljóðfæri – þau geta spilað ákveðna tóna á tréspil og tóna)
 • Rapp (gaman að gera eitthvað annað en að syngja)
 • Klappstapp (námsefni)
 • Hermispil – mjög gott þegar unnið er með taktinn
 • Hljóðfærabingó (læra nöfnin á öllum hljóðfærum og hvernig þau hljóma)

 

Dæmi um verkefni:

 • Sterkt/veikt: Hægt að nota hvaða lag sem er. Þegar þau eru að syngja er hægt að gefa þeim merki með handabendingum (hendur saman eða í sundur) hvort þau eigi að syngja sterkt eða veikt (ágætt að hafa dálítið ýktan mun á sterku og veiku til að byrja með). Þeim gæti síðan þótt spennandi að fá að stjórna sjálf (eitt í einu) hvort sungið er sterkt eða veikt. Þá er einn leikur í bókinn Við spilum og leikum við litlu börnin á bls. 11 sem á að hjálpa þeim að þekkja muninn á sterku og veiku. Eins er hægt að fara í leikinn að fela hlut og í staðin fyrir að segja „heitur-kaldur“ á spila sterkt eða veikt.
 • Spila eftir spjöldum við nánast hvaða lag sem er (það má þó ekki vera það hratt að þau nái ekki að vera samtaka – gera samt kröfu um að þau séu samtaka)
 • Hljóðfæravinna; spila samtaka. Til þess að fá þau til að spila samtaka er ágætt að byrja á grunninum; klappa atkvæði. Byrja að láta þau t.d. klappa nafnið sitt, uppáhalds matinn…hvað sem er. Síðan er hægt að láta þau hafa hljóðfæri og slá atkvæðin með nöfnunum/orðunum. Síðan er hægt að fara að nota hermispil og láta þau slá á „1-2-3-4“ (þú spilar og telur 1-2-3-4 og þau herma síðan eftir) smám saman er hægt að gera þetta flóknara. Síðan er hægt að syngja einfalt lag og láta þau slá takinn með og æfa sig að spila hann saman. Eins getur verið gott að láta þau ganga í ákveðnum takt (þá er hægt að spila t.d. á trommu með)
 • Hratt/hægt ágætt að ræða við þau um að sum lög séu hörð og önnur séu hæg (gefa hljóðdæmi svo þau skilji betur) og þegar þau eru að æfa sig að vera samtaka þá verðið þau að hlusta eftir því hvort að lagið sé hratt eða hægt. Til þess að auka tilfinningu þeirra fyrir hraða eru fínir leikir í bókinni Við spilum og leikum við litlu börnin á bls. 4, 8 og 11. Eins getur verið skemmtilegt að finna nokkur lög og spila fyrir þau og þau eiga að segja til um hvort að lagið sé hægt eða hratt (þá má t.d. fara á youtube og finna lög úr uppáhalds teiknimyndunum til þess að hafa þetta spennandi 😉 ).
 • Ef þau eiga að spila með söng er ágætt að hafa ekki textann of flókinn eða spilið of flókið, mörgum reynist erfitt að gera bæði í einu

 

Fjórða ár:

Dagskráin hjá elstu deild er ansi þétt fyrir áramót fer nánast öll vinna í að undirbúa Vökudaga og síðan í framhaldinu að undirbúa helgileikinn. Það þarf síðan að meta þegar starfið hefst aftur eftir áramót hversu þreytt börnin eru á allri þessari vinnu. Það er um að gera að nota janúar og febrúar í óhefðbundna tónlistartíma áður undirbúningur fyrir útskrift hefst.

Dæmi um vinnu:

 • Söngur (söngurinn ætti að geta verið sterkur/veikur, hraður/hægur – eftir því hvað hentar hverju lagi og vera breytilegur t.d. fyrsta erindi sterkt, annað erindi veikt o.s.frv. Eins ættu þau að geta sungið einfaldan keðjusöng)
 • Hljóðfæravinna (þau ættu að vera meðvituð um að spila sterkt/veikt, hægt/hratt eftir því hvað á við). Eins ættu einhvern börn að geta spilað ákveðna tóna í ákveðinni röð (um að gera að nota liti á tónana til þess að kenna þeim)
 • Hljóðfæravinna getur verið alls konar og bara spurning um hugmyndarflug. Hægt er að nota öll hljóðfæri við öll lög en þau passa vissulega misvel saman. Hægt er að láta börnin spila eftir spjöldum, handabendingum, styrkleikabreytingum, allir standa kyrrir, allir gangandi um gólf (í röð eða út um allt).
 • Taktur/hryn: hermispil er góð leið til að kenna börnunum ólík hrynmynstur
 • Tilfinningar í tónlist. Eftir áramótin er hægt að leika sér meira með tónlistartímana og er þá til dæmis hægt að útskýra fyrir börnum að tónlist geti haft alls konar tilfinningar (um að gera að nota lög úr teiknimyndum til útskýringa)
 • Hlustun: Kenna börnunum að hlusta eftir því hvað sé að gerast í tónlistinni (gott að nota lög úr teiknimyndum, finna lög sem eru t.d. spiluð undir eltingaleik, sorgmæddum atriðum og þess háttar) og fá börnin til þess að reyna að hlusta eftir því hvað er að gerast. Þá má einnig láta þau teikna það sem er að gerast í tónlistinni að þeirra mati

 

Hugmyndir að „öðruvísi“ tónlistartímum

– Hljóðfærabingó. Það fara yfirleitt alveg 2 tímar í hljóðfærabingóið svo að allir geti fengið að vera bingóstjórar (ágætt að hafa 2 bingóstjóra saman í einu). Líka ágætt að taka ekki of margar umferðir í tíma því þau missa athyglina nokkuð fljótt (þrátt fyrir að þeim finnist þetta líka mjög skemmtilegt). Ágætt að leyfa þeim frekar að fara í stoppdans/ásadans eða eitthvað annað skemmtilegt eftir 3-4 umferðir af bingó.

– Úr hvaða mynd er lagið? Það er þægilegast að taka bara fartölvu og tengja við air-magnarann. Fara á youtube (það er internet inni í sal) og finna lög úr vinsælum teiknimyndum – ekki endilega taka frægasta lagið og það er líka allt í lagi þó lagið sé ekki á íslensku, þá þurfa þau bara að hafa aðeins meira fyrir þessu J. Það er í góðu lagi þó það taki tíma fyrir þau að átta sig á laginu. Ef illa gengur að er hægt að spyrja krakkana hvað þau haldi að sé að gerast í laginu og þess háttar. (Það er ekkert verra að hafa tímana helmingi styttri og hafa færri börn inni í einu, þá eru þau ekki mörg að grípa fram í fyrir hvort öðru)

Hugmyndir að lögum:

-Walt disney theme song (bara hrekkja þau smá þetta stef kemur fyrir allar disney myndir ;))

– You’ve got a friend in me (Toy story)

– When Somebody Loved Me (Toy Story 2) þekkja það ef til vill ekki en geta þau fundið út að sú sem syngur er döpur?

-Spoon full of sugar (Mary Poppins)

-Hakuna Matata (Lion King)

– Ég ætla verða kóngur klár (Lion King)

– When Will My Life Begin? (Garðabrúða)

– Mother Knows best (Garðabrúða)

– I’ve Got A Dream (Garðabrúða) pínu erfitt

….það virkar allt, bara finna eitthvað sem þér dettur í hug 🙂

Er tónlistin glöð, döpur, reið, ill?  Kannski segja stuttlega að tónlist getur gefið til kynna í hvernig skapi fólk er eða hvernig því líður. Gefa þeim síðan dæmi um glaðlegt lag t.d. „Sing a happy song“ úr strumpunum. Dæmi um sorgmædd lag t.d. „When somebody loved me“ úr Toy Story 2, reitt lag t.d. „The mob song“ úr Fríða og dýrið og illt lag gæti t.d. verið „Be prepared“ úr Lion King.

Síðan er ágætt að spila fyrir þau nokkur lög og láta þau dæma um hvort að viðkomandi sé glaður, reiður, dapur, illur/vondur.

Dæmi:
Gleði: Hakuna matata, Ég ætla verða kóngur klár, Guffagrín, A Whole New World, Friend like me, við eigum hvor annan að… o.f.

Depurð: Reflection (Mulan), I’m still here (treasure planet), Colors of the Wind (Pocahontas)

Reiði: The Imperial March (star wars), Savages (Pocahontas)

Vondur/ill: Mother knows best (Garðabrúða)

Til þess að fá lögin á íslensku á youtube er ágætt að skrifa bara enska nafnið á laginu og skrifa bara icelandic á eftir.

– Danstími. Stoppdans, ásadans, setudans, spiladans (dansa við tónlist, þegar hún stoppar finna allir sér hljóðfæri, þegar tónlistin byrjar aftur eiga allir að spila á hljóðfærin, allir hætta þegar tónlistin stoppar og fara aftur að dansa o.s.frv.)

Sýning. Leyfa öllum þeim börnum sem vilja að vera með eitthvað atriði  (hvort sem það er að segja brandara, spila á eitthvað hljóðfæri – ekki hika við að leyfa börnunum að nota hvaða hljóðfæri sem er-, segja sögu…skiptir ekki máli). Á meðan eiga hin börnin að æfa sig að vera „alvöru“ áhorfendur. Ágætt að fara yfir hvernig áhorfendur hegða sér, það má fara með stóla inn í sal til að sitja á til þess að gera þetta raunverulegra. Þá eru börnin bæði að æfa sig að koma fram (eitt í einu eða nokkur saman) og að hlusta á hina.

 

Námsefni

Inni í sal er bókin Við spilum og leikum við litlu börnin. Í henni eru nokkrir mjög aðgengilegir tónlistarleikir sem miða að því að börnin upplifi og finni muninn á t.d. sterkt og veikt, hægt og hratt, háir og djúpir tónar og mun á ólíkri tónlist. Bókin er mjög aðgengileg, leikirnir vel útskýrðir og fylgir geisladiskur með.

Á bókasafninu eru tvö tónlistarspil, Pétur og úlfurinn og Karnival dýranna. Bæði spilin bjóða upp á fjölbreytta leiki sem ef til vill henta betur fyrir eldri börnin en einhverja má aðlaga að yngri börnum.

Gaman saman með Pétri og úlfinum. Spilið bíður upp á lottó, samstæðuspil, veiðimaður og úlfur úlfur (svarti pétur). Með spilinu fylgja góðar leiðbeiningar og má aðlaga einhver verkefni að yngri börnum (t.d. geta þau leikið ákveðin dýr á meðan hlustað er á söguna o.þ.h). Geisladiskur með sögunni fylgir EKKI en á að vera til á flestum deildum.

Gaman saman með Karnivali dýranna. Spilið er hugsað fyrir börn frá þriggja ára aldri og hentar því öllum deildum. Með spilinu fylgja góðar leiðbeiningar, hellingur að skemmtilegum grímum sem hægt er að nota í hreyfileiki, lottó/bingó, samstæðuspil, veiðimaður og ljónið hættulega (Svarti pétur).

Á bókasafninu er einnig fjöldinn allur af bókum og námsefni sem hægt er að nýta sér. Þar er meðal annars:

Dans/hreyfing:

 • Dansar og hreyfileikir fyrir leikskólabörn. Mappa með 30 leikjum og geisladiskur með, leikirnir eru vel útskýrðir og er hægt að finna þar leiki fyrir allan aldur
 • Töfrakassinn tónlistarleikir. Í bókinni eru meðal annars þónokkuð af hreyfileikjum (ásamt fleiru) sem eru allir mjög vel útskýrðir
 • „Hugmyndabanki“ útprentuð blöð/ritgerð þar eru hugmyndir að nokkrum hreyfileikjum
 • Léttir söngleikir og dansar. ATH vantar geisladisk

Taktur/hryn

 • Töfrakassinn tónlistarleikir. Í bókinni eru ýmsir leikir sem hjálpa börnum að fá tilfinningu fyrir takt/hryn
 • Klapp/stapp
 • „Hugmyndabanki“ útprentuð blöð/ritgerð þar eru hugmyndir að takt/hrynæfingum

 

Hljóðfæravinna

 • Töfrakassinn tónlistarleikir. Í bókinni eru ýmsir leikir sem unnið er með hljóðfæri.
 • „Hugmyndabanki“ útprentuð blöð/ritgerð þar eru hugmyndir að hljóðfæravinnu
 • Ef þið viljið sýna börnunum myndir af ólíkum hljóðfærum (og jafnvel lesa sögu með) eru til nokkrar bækur um Tomma og töfraheim tónanna. Eins eru alls konar hljóðfæri (gömul og ný) í bókinni Tónlist og hljóðfæri. Eins er sögubók sem heitir Hljómsveitin fljúgandi

Hlustun

 • Karnival dýranna. Á bókasafninu eru 2 bækur um Karnival dýranna og fylgir geisladiskur með. Einnig er til spil

Söngur/textar

 • „Hugmyndabanki“ útprentuð blöð/ritgerð þar eru hugmyndir að hvernig er hægt að æfa sönglög á mismunandi hátt og fá börnin til þess að velta fyrir sér hvort passi að syngja sterkt/veikt – hægt/hratt
 • Í grænni lautu er bók með alls konar söngvaleikjum (það fylgja stuttar leiðbeiningar með leikjunum en það er ekki geisladiskur með svo spurning hvort starfsfólkið þekki lögin)

Gömlu góðu:

 • Skólaljóð
 • Geislalín
 • Vísnabókin
 • Gaman væri að syngja saman
 • Ljóðspeglar
 • Ljóðspor
 • Skólasöngvar
 • Nokkrar textabækur eftir Stefán Jónsson
 • Vísnabók
 • Fleiri gamlar vísur handa nýjum börnum

Með táknum:

 • Gul mappa full af sönglögum ásamt táknum
 • Syngjum með táknum
 • Með á nótunum
 • Með á nótunum 2 (geisladiskur fylgir)

Textar:

 • Gælur fælur þvælur (geisladiskur með)
 • Krúsilíus
 • Mappa með sönglögum í ákveðnum þemum, t.d. um dýr, árstíðir o.fl.
 • Stjörnur í skónum (textar og geisladiskur með)
 • Fljúga hvítu fiðrildin
 • Klappa saman lófunum

Jólalög:

 • Jólalög & söngvar með nótum

Lita undir tónlist

 • Litabók með myndum „úr“ alls konar lögum (t.d. hani krummi, í hlíðarendakoti, óskasteinar o.fl.)