Heimspeki og tónlist

Hér má lesa lokaskýrslu þróunarverkefnisins í heild sinni.

 

Upphafið: Heimspeki og tónlist

Haustið 2006 tóku við nýjir stjórnendur í Vallarseli, Brynhildur Björg Jónsdóttir var skipaður leikskólastjóri en hún hafði áður gengt starfi aðstoðarleikskólastjóra og sérkennslustjóra. Við því hlutverki tók Kristín Sveinsdóttir sem áður hafði gegnt stöðu deildarstjóra. Eftir margra ára markvisst starf með tónlist vildu nýjir stjórnendur koma með ferska vinda inn í starfið. Ákveðið var að reyna að tengja saman heimspeki og tónlist og í framhaldi af því var farið á fund við Sigurð Björnsson, heimspeking og lektor við Kennaraháskóla Íslands, sem tók að sér að vinna þetta verkefni með starfsfólki leikskólans. Sigurður sýndi verkefninu strax mikinn áhuga og fór fljótlega að tala um að búa til námsefni tengt heimspeki og tónlist, sem hann fór þegar í að vinna en er í dag ekki fullunnið fyrir útgáfu.

Vorið 2007 sótti leikskólinn um verkefnastyrk leikskóla Akraneskaupstaðar til þess að koma verkefninu á laggirnar sem gekk eftir. Sigurður hélt kynningarfyrirlestur um heimspeki fyrir starfsfólk skólans og kom hann í þó nokkur skipti til að æfa og fræða starfsfólk okkar.  Hann hefur undafarin 3 ár komið reglulega í leikskólann, bæði til lað rýna með okkur til gagns og vinna með okkur í að meta framfarir og næstu skref.

Sá háttur er hafður á að tveir starfsmenn, á þeim deildum sem heimspekistarfið fer fram, sjá um kennsluna en allar deildir eru í heimspeki nema yngsti árgangurinn.

Markmið verkefnisins

Markmiðið með verkefninu Heimspeki og tónlist var að tengja saman heimspekilega samræðu og tónlist. Heimspekilegu samræðuna á að nota til þess að dýpka skilning barnanna á lagatextum og skapa ríkari forsendur til tónlistarupplifunar. Með ríkari forsendum til tónlistarupplifunar er átt við að með umræðum um textana sem börnunum er kenndur að syngja, leik með hljóðfæri í flutningi laganna og umræðum um hljóð og tóna í tengslum við textana, verður upplifun barnanna heildstæðari. Börnin verða næmari á hljóð og tóna í umhverfinu og hugmyndatengsl við umhverfi og atburði eru örvuð með áherslu á tengingu á milli hljóða og huglægrar merkingar orða í textunum.

Í heimspekilegri samræðu eru börnin þjálfuð í því að rökræða allar tegundir heimspekilegra viðfangsefna.  Allt frá spurningum um eðli og upphaf heimsins og orsakasamhengis til vangavelta um tilgang lífsins og hvað felst í því að lifa góðu lífi. Börn hafa náttúrulega tilhneigingu til heimspekilegrar forvitni og því eru viðfangsefni heimspekinnar og aðferð hennar börnum í raun ekki framandi. Markviss þjálfun í heimspekilegum þankagangi þjálfar börn á mörgum sviðum. Vitsmunalega er skerpt á rökhugsun og ályktunarfærni svo dæmi séu tekin, með því að fá börnin til þess að spyrja spurninga og setja fram tilgátur sem leiddar eru út og bornar saman undir leiðsögn kennara. Í námskrá er þessi færni nefnd gagnrýnin hugsun og heimspekileg rökræða tekur til allra þátta hennar. Heimspekileg rökræða stuðlar að sjálfstæðri hugsun barna í margvíslegum skilningi. Í samræðunni er stöðug krafa um rökstuðning og sú færni skapar sjálfsöryggi sem gerir börnum kleift að standa fast á skoðunum sínum en jafnframt sjálfstraust til að taka mark á rökum annarra og leyfa þeim að hafa áhrif á skoðanir sínar. Í samræðunni verður til traust í barnahópnum og virðing fyrir hugsun og skoðunum annarra og sinni eigin hugsun.

Sá heimspekilegi þankagangur sem hér er lýst opnar hugsun á mörgum sviðum og í þessu verkefni var markmiðið að tónlistin yrði umgjörðin um skapandi vangaveltur um allt á milli himins og jarðar. Tónlistin og textarnir verða hluti af hugmyndaheimi barnanna en samræðunni er ætlað að efla hjá þeim spurningar um veruleikann með öðrum hætti en heimspeki sem styðst eingöngu við lesna texta og sögur. Að slíkri nálgun ólastaðri.

Í Aðalnámskrá leikskóla segir m.a. að hvetja eigi barnið til að segja frá atburðum og öðru sem því er hugleikið og þá skuli hlustað af athygli. Samræður, sem byggjast á opnum spurningum þar sem svarið krefst íhugunar, örva gagnrýna hugsun.  Hvetja þarf börn til að færa rök fyrir máli sínu.  Börn spyrja oft heimspekilegra spurninga.  Ein spurning vekur oft upp aðra.  Ber að hlusta vel á svör barna og hugleiðingar. Samræðuaðferð, sem notuð er í ,,barnaheimspeki”, á vel við í leikskólastarfi.  Nauðsynlegt er að gæta þess að sérhverju barni gefist kostur á að leggja eitthvað til málanna.

 

Kynningar á verkefninu

Starfshópurinn sem kom að verkefninu hefur verið duglegur við að breiða út boðskapinn og hefur leikskólinn sem dæmi tekið þátt í tveimur ráðstefnum auk þess sem hann hélt kynningarfund fyrir foreldra þátttakenda. Þá hefur leikskólinn fengið þó nokkrar heimsóknir frá öðrum leikskólum sem og frá gestum sem sáu kynningu leikskólans á verkefninu á áður nefndum ráðstefnum:

  • Þann 19. apríl 2008 voru fulltrúar heimspekihópsins með málstofu á Ráðstefnu skólaþróunarsviðs kennaradeildar HA, sem hét Hjá öllum vakir þráin að birta öðrum hug sinn- samskipti og tjáning í skólastarfi. Þar var verkefnið kynnt og fékk það góðar viðtökur.
  • Þann 23. október 2008 voru fulltrúar heimspekihópsins með málstofu á málþingi sem var haldin í HÍ á vegum menntavísindasviðs HÍ og hét Listin að læra-sköpun skiptir sköpum.  Á málstofunni var fullt út af dyrum og eftir hana var mikið rætt við fulltrúa hópsins um verkefnið. Í framhaldi af því fékk leikskólinn nokkrar heimsóknir frá öðrum leikskólum sem vildu kynna sér starfið í Vallarseli betur.
  • Þann 18. mars 2009 var haldin opin kynningarfundur í Vallarseli, þar sem verkefnið var kynnt fyrir foreldrum barnanna.
  • Þann 19. Nóvember 2009 vorum við beðin um að kynna verkefnið okkar á ráðstefnu Faghóps leikskólasérkennara og Faghóps listgreinakennara í leikskólum. Ráðstefnan hét Skapandi afl í leikskóla…rauði þráðurinn í starfinu. Íris og Heiða stóðu sig frábærlega við að kynna verkefnið.
  • Þá hafa aðstandendur heimspekihópsins sett sér það markmið í samvinnu við Sigurð Björnsson um að gefa út það námsefni sem unnið var með í þessu þróunarverkefni. Búið er að fullvinna námsefnið en þó á enn eftir að sækja um styrki til þess gefa efnið út.

Samvinna við aðra:

Eftirtaldir aðilar veittu aðstandendum verkefnisins faglega ráðgjöf:

  • Sigurður Björnsson, heimspekingur og lektor við KHÍ, sá um námsefnisgerð og faglega ráðgjöf. Auk þess sá hann um kennslu í heimspekistjórnun og þjálfun starfsfólks.
  • Kári Schram kvikmyndatökumaður sá um ákveðin hluta myndbandsupptöku verkefnisins.
  • Guðbjörg  Guðjónsdóttir, leikskólastjóri í leikskólanum Foldaborg, var aðstandendum verkefnisins innan handar varðandi heimspeki með börnum en hún er mikil „heimspekikona“ og stundaði m.a. nám er varða þau fræði meðan verkið var í vinnslu. Meðan á verkefninu stóð heimsótti Guðbjörg leikskólann á starfsmannafund þar sem hún kynnti starfsfólki m.a. svokallaða „starfsmannaheimspeki“
  • Starfsfólk leikskólans Lundarsels. Við höfum verið í sambandi við leikskólann Lundarsel á Akureyri sem hefur unnið með heimspeki síðan 2001. Skólarnir hafa t.d. skipst á hugmyndum er varða heimspeki.