Foreldrahandbók

 

Hægt er að nálgast foreldrahandbók Vallarsels hér

 

Kæra fjölskylda !

 

Hjartanlega velkomin

í   VALLARSEL

 

Það er okkur sönn ánægja að kynnast ykkur og við hlökkum til að starfa með ykkur að velferð og vellíðan barnsins ykkar. Höfum hugfast að  barnið er aðalatriðið og að “orð eru til alls fyrst”.

Síminn í Vallarseli er 433-1220

Netfang skólans er vallarsel@akranes.is

Heimasíðan okkar er akranes.is/vallarsel

Heimilisfang: Skarðsbraut 6.

 

Sími sérkennslustjóra er 433-1221

og netfangið er kristinsv@akranes.is

 

 Samkvæmt lögum nr. 78/1994 er leikskólinn fyrsta skólastigið í skólakerfinu.  Í Aðalnámskrá leikskóla  1999 segir:  “LEIKSKÓLI ER EKKI SKYLDUNÁM OG HEFUR ÞVÍ NOKKRA SÉRSTÖÐU SEM FYRSTA SKÓLASTIGIД.

 

      Ennfremur segir í Aðalnámskránni:

“ FORELDRAR BERA FRUMÁBYRGÐ Á UPPELDI BARNA SINNA EN LEIKSKÓLASTARFIÐ ER VIÐBÓT VIÐ ÞAÐ UPPELDI SEM BÖRNIN FÁ Á HEIMILUM SÍNUM. LEIKSKÓLINN ER FYRIR ÖLL BÖRN, ÓHÁÐ ANDLEGU OG LÍKAMLEGU ATGERVI, MENNINGU

EÐA TRÚ .”

Akraneskaupstaður rekur Leikskólann Vallarsel.  Mál leikskólans   heyra undir Menningar- og fræðslusvið Akraneskaupstaðar með aðsetur á Bæjarskrifstofunni Stillholti 16 – 18,  sími 433-1000. 

Á skrifstofu Menningar- og fræðslusviðs starfa sviðstjóri ásamt verkefnastjóra, sálfræðingum, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfa og talmeinafræðingi.

 

Byggingasaga Vallarsels

Bygging leikskólans við Skarðsbraut hófst árið 1977.  Leikskólinn tók svo til starfa 20. maí 1979.  Þá voru 2 deildir í skólanum, 2 fyrir hádegi og 2 eftir hádegi.

 

Vorið 1982 var hafist handa við að stækka leikskólann og  að vori 1985 var tekinn í notkun dagheimilisdeild, eins og það hét í þá daga, þ.e.a.s. eingöngu börn sem voru allan daginn í leikskólanum.   Haustið 1998 var skólanum aldursskipt og á öllum deildum voru börn allan daginn og/eða hálfan daginn.

 

Þann 24. júní 2003 tóku börnin í Vallarseli óformlega fyrstu skóflustungu að stækkun Vallarsels og í sumarlokuninni voru gerðar gagngerar breytingar í Vallarseli, sem höfðu í för með sér gjörbyltingu á  starfsmannaaðstöðu skólans, svo það gerist vart betra.

 

Hafist var handa við nýbygginguna í lok ágúst 2003 sem í daglegu tali er kölluð SEL.  Í byggingunni eru 3 deildir og salur, en í tengibyggingu er listasmiðja.  Selið var tekið í notkun 1. febrúar 2004, þar með er Vallarsel orðin 6 deilda leikskóli.  Vallarsel hýsir yngri deildir leikskólans en Sel þær eldri.

 

Vallarsel er 930.6 m2 og lóðin 5610 m2.  Í reglugerð um starfsemi leikskóla nr. 225/2001 kveður á um að hvert barn skuli hafa 6,5 m2 samtímis í leikskólanum utan þess tíma sem hópar skarast, þar af verði leik- og kennslurými a.m.k. 3,0 m2 fyrir hvert barn.     

Samkvæmt þessu mega vera 143 börn samtímis í Vallarseli.

 

Nafnið VALLARSELvar skólanum gefið 1992 en það er dregið af staðháttum í umhverfi hans frá fyrri tíð.

Deildir yngri barnanna, í Vallarseli, heita SKARÐ, JAÐAR og VELLIR en deildir eldri barnanna, í Seli, heita LUNDUR, HNÚKUR og STEKKUR.  Þessi nöfn eru öll dregin úr umhverfi leikskólans.

 

Uppeldistefna Vallarsels

Eins og lög gera ráð fyrir er uppeldisstarfið grundvallað á AÐALNÁMSKÁ LEIKSKÓLA.

 

Aðaláhersluatriði í starfinu okkar er TÓNLIST.  Markmiðið er að barnið verði virkt í tónlistarstarfinu og fái í gegnum söng, leik, hlustun og frjálsa tjáningu sem fjölbreyttasta reynslu af tónlist og þeim hljóðheimi sem er alls staðar í kringum okkur.

Þar sem tónlistin er okkar sérstaða, fá öll börn leikskólans tíma einu sinni í viku. það er tónlistastjóri á hverri deild sem ber ábyrgð á tónlistarkennslunni. Hann þjálfar hjá börnunum hlustun, söng, næmni fyrir hryn og hljóðum og kennir þeim grunnhugtök í tónlist. Þá er oft farið í leiki sem byggjast á tónlist og hreyfingu. Börnin fá að spila á hin margvíslegustu hljóðfæri. Unnið er síðan með tónlistina áfram í samverum og hópastarfi. Við leggjum áherslu á að til sé vandað og fjölbreytt úrval af hljóðfærum.

FRJÁLSI LEIKURINN

er annað áhersluatriði í uppeldisstarfi Vallarsels.  Leikurinn er undirstaðan og kjarninn í lífi og starfi barnsins, lífstjáning þess og eðli. Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og er mikilvægasta náms- og þroskaleið allra barna. Í leik læra þau margt sem enginn getur kennt þeim.

Valið er ramminn utan um frjálsa leikinn. Þar geta börnin valið sér þau svæði sem þau vilja leika sér á. Reynt er að hafa fjölbreytt val hvað varðar efnivið og aðstöðu.

Nýjungar í starfinu

Í leikskólastarfinu verðum við ávallt að þróa okkur í starfi og vera á tánum. Í janúar 2007 fór allt starfsfólk Vallarsels á námskeið í lífsleikniverkefninu “Stig af stigi” en þar er m.a. unnið með: að bera virðingu fyrir skoðunum annarra, taka tillit, setja orð á tilfinningar o.fl.  Elsti árgangur leikskólans vinnur með þetta námsefni en næst-elsti árgangur fer létt yfir þetta eftir hver áramót.

 

HEIMSPEKI OG TÓNLIST

Við höfum verið að vinna með tónlistina frá haustinu 1998 og fannst okkur því komin tími til að þróa okkur enn meir. Haustið 2006 fengum við styrk frá Akraneskaupstað, sem gerði okkur kleift að fá til liðs við okkur Sigurð Björnsson, heimspeking og lektor við Kennaraháskóla Íslands. Í samstarfi við hann erum við að þróa og  vinna með “Heimspeki og tónlist”, þar sem við vinnum áfram með valin barnalög.  Á vordögum 2008 fengum við svo styrk úr Þróunarsjóði leikskóla að upphæð kr. 900.000.- til að þróa og styrkja þetta verkefni enn frekar.

Markmiðið með verkefninu er að tengja saman heimspekilega samræðu og tónlist. Heimspekilegu samræðuna á að nota til þess að dýpka skilning barnanna á lagatextum og skapa ríkari forsendur til tónlistarupplifunar. Með ríkari forsendum til tónlistarupplifunar er átt við að með umræðum um textana sem börnunum er kennt að syngja, leik með hljóðfæri í flutningi laganna og umræðum um hljóð og tóna í tengslum við textana, verður upplifun barnanna heildstæðari. Börnin verða næmari á hljóð og tóna í umhverfinu og hugmyndatengsl við umhverfi og atburði eru örvuð með áherslu á tengingu á milli hljóða og huglægrar merkingar orða í textunum.

 

Aðlögun

Að byrja í leikskóla er stórt en jafnframt mikilvægt og skemmtilegt skref í lífi barns.  Það er grundvallaratriði að aðlögunin takist vel og sé barninu jákvæð reynsla.  Það tryggir að barnið verður öruggara og ánægðara í leikskólanum.

Áætlaður tími til aðlögunar er u.þ.b. vika en það fer eftir því hversu tilbúið barnið er.  Í fyrstu heimsókn barns og foreldra er skólinn og starfsemi hans kynnt, ásamt því að gengið er frá “pappírsmálum”.

Foreldri er með barninu inni á viðkomandi deild í annarri heimsókn en dregur sig síðan í hlé með því að fara út af deildinni í stuttan tíma í einu og síðan út af leikskólanum.

 

Framganga aðlögunarinnar er undir handleiðslu deildarstjóra og fer alfarið eftir viðbrögðum barnsins og aðstæðum foreldra. Aðlögunartíminn er einnig mikilvægt tækifæri fyrir foreldra til að kynnast starfsfólki deildarinnar.

 

Aðlögunarviðtal

Um það bil fjórum vikum eftir að barn byrjar í leikskólanum er foreldrum boðið upp á foreldraviðtal af viðkomandi deildarstjóra.

 

Að sækja barn í leikskólann

Að ráði umboðsmanns barna höfum við í Vallarseli sett okkur þá reglu að börn yngri en 12 ára megi EKKI sækja barn í leikskólann.

Umboðsmaður barna telur eðlilegt og ábyrgt að leikskólar setji sér reglu í þessu sambandi.

 

Grunntími

Áríðandi er að foreldrar virði, að EKKI er leyfilegt að barn sé í leikskólanum utan þess tíma sem keyptur er.

ALLT SEM ER UMFRAMKEYPTAN

GRUNNTÍMA KOSTAR AUKALEGA.

Hefð er fyrir því að starfsfólk skrái komu- og farartíma barnanna.

 

Opnun og lokun

Til að Vallarsel opni kl. 6:45 verða að vera minnst þrennir foreldrar sem nýta sér það og sama gildir um tímann til kl. 18:00.

 

Dvalargjald

Gjaldið greiðist fyrirfram.  Gjaldskrá er endurskoðuð einu sinni á ári og taka breytingarnar mið af launa- og framfærsluvísitölu.  Breytingar á gjaldskrá eru ákveðnar af rekstraraðila.

Uppsagnarfrestur

Leikskólaplássi skal segja upp með mánaðar fyrirvara og skal miðast við mánaðarmót.

 

Breytingar á vistunartíma

Allar breytingar skulu vera í samráði við leikskólastjóra.

Veikindi og fjarvera barna

VINSAMLEGA TILKYNNIÐ FORFÖLL barna sem eru í hádegismat fyrir kl. 10:00. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir eldhúsið að vita þegar þau börn sem eru með ofnæmi koma ekki, því oft þarf að elda sérstaklega fyrir þau.

 

Ef barn er veikt eða með smitsjúkdóm Á það að vera heima.  Veikist barn eða slasist í leikskólanum eru foreldrar látnir vita og ætlast er til að það sé sótt.

Tveggja daga innivera eftir mikil veikindi er sjálfsögð.  Sé að mati foreldra þörf á lengri inniveru, er álitamál hvort barnið sé fært um, heilsu sinnar vegna, að taka þátt í því starfi sem fram fer í leikskólanum og því óskað eftir vottorði frá lækni.  Einnig ef börn eru með ashma eða aðra öndunarfærasjúkdóma sem útivera getur haft áhrif á, ráðleggjum við foreldrum að koma með vottorð frá lækni.

Dagleg útivera er hluti af leikskólastarfinu.  Sjálfsagt er að stytta útiverutíma barns, í samráði við deildarstjóra, ef nauðsyn er talin til.  Önnur innivera skal vera í samráði við deildarstjóra.

 

Slys 

Slasist barn í leikskólanum er undantekningarlaust farið með barnið á slysadeild og hringt í foreldra og greiðist komugjald af leikskólanum.  Sé um minni háttar atvik að ræða eru foreldrar látnir vita og þeir beðnir að koma og meta með okkur hvort þeir fari sjálfir með barnið á slysadeild.  Akraneskaupstaður hefur samkvæmt lögum tryggingar er varða skaðabótaskyldu, þannig að öll börn eru tryggð í leikskólanum.

 

Lyf

Samkvæmt ráði Heilsugæslulækna á Akranesi:

“Lyfjagjafir á leikskólatíma eru í flestum tilfellum óþarfar.  Í undantekningartilvikum ef þarf að gefa lyf oftar en þrisvar á dag er það gert.  Og þó að lyfið þurfi að gefa þrisvar, þá skiptir ekki máli þótt rúmir 8 tímar líði á milli gjafa.

Undantekningar á þessu gætu verið sykursýkis-, asthma- og ofnæmislyf og hugsanlega lyf við ofvirkni.  Í slíkum tilvikum er ráðlegt að fá skrifleg fyrirmæli frá lækni.”

Lyf eru ekki geymd í leikskólanum.

 

Fæðuofnæmi

Sé barnið með fæðuofnæmi skal alltaf framvísa læknisvottorði, þar sem tekið er fram um hvers konar ofnæmi sé að ræða.

 

Fatnaður

Gott er að hafa í töskunni a.m.k. einn umgang af fötum fyrir utan hlífðarfatnað, regnfatnað og snjófatnað yfir veturinn.

Til þess að auðvelda þrif á hólfum í fataherberginu eru foreldrar vinsamlega beðnir að tæma hólfin á föstudögum.

 

Merkingar á fötum

ALLUR FATNAÐUR SKAL VERA MJÖG VEL MERKTUR. Við bendum á að hægt er að kaupa merkingarborða frá Rögn en rogn.is er á netinu. Annars eigum við eyðublöð til að senda þeim.

 

Skipulagsdagar

Það eru fjórir starfsdagar á starfsárinu, tveir á vorönn og tveir á haustönn. Þá daga er leikskólinn lokaður.

 

Sumarleyfi

Leikskólinn er alltaf lokaður 4 vikur á sumrin, oftast í júlí.

 

Foreldrafundur

Á haustönn er fundur með foreldrum þar sem vetrarstarfið er kynnt og annað er varðar starfsemi skólans. Vegna stærðar okkar höfum við þann háttinn á að hver deild er með sinn foreldrafund.  Nýjir foreldrar eru einnig boðaðir á kynningarfund í byrjun sumars.

 

Foreldraviðtöl

Boðið er upp á einstaklingsviðtöl tvisvar á ári, á haustönn og á vorönn, þar sem skipst er á upplýsingum um viðkomandi barn.

 

Flutningsviðtöl

Foreldrum barnanna sem flytjast á milli deilda er boðið upp á viðtal á nýju deildinni um hvernig gengur að hausti.

 

Við leggjum mikla áherslu á að foreldrar komi í boðað viðtal, hægt er að breyta viðtalstímanum ef hann hentar ekki.

 

Foreldrar geta, þar fyrir utan, beðið um viðtal hvenær sem er og eru hvattir til að nýta sér það.

 

Foreldraráð

Allir foreldrar barnanna í Vallarseli eru sjálfkrafa í foreldrafélagi leikskólans.

Kosið er í foreldraráð á haustin og er æskilegt að í því séu tveir fulltrúar af hverri deild ásamt einum fulltrúa starfsfólks og leikskólastjóra.

Foreldrafélagið er ómetanlegur bakhjarl og hefur reynst okkur vel og keypt handa okkur margt, m.a. sjónvarp og DVD-spilara,myndbandsupptökutæki o.fl.

Það hefur einnig styrkt okkur í okkar árlegu sveitaferð og útskriftarferð elstu barnanna, boðið börnunum upp á leiksýningu, grillhátið að vori og svona mætti endalaust telja.

 

Virkt foreldrafélag er mikil stoð og styrkur hverjum leikskóla.

 

Ferða- og skemmtisjóður

Þessi sjóður er alfarið í höndum foreldraráðsins.  Greiddar eru kr. 1500.- (pr. barn) tvisvar á ári inn á bankareikning sjóðsins.

 

Söngbækur og geisladiskur

Við lukum okkar tónlistarstarfi vorið 2006 með því að gefa út mjög vandaðan geisladisk þar sem börnin syngja uppáhaldslögin okkar. Það var mikið vandað til framleiðslu þessa disks og er útkoman eftir því. Við gáfum að sama skapi út söngbók sem er mjög vönduð og efnismikil. Við sendum ekki prentaða söngtexta heim, heldur vísum í blaðsíðutal í söngbókinni. Hvort tveggja er til sölu og kostar 1500. kr.

 

Brúum bilið

Samstarfsverkefni er á milli grunnskóla og leikskóla Akraness og kallast það Brúum bilið. Þetta verkefni er eingöngu fyrir elsta árgang leikskólans. Þá fara börnin í heimsóknir þar sem þau fá að kynnast sínum tilvonandi skóla og starfsfólki hans.

Markmiðið með samstarfsverkefninu er m.a að auðvelda börnum upphaf skólagöngu sinnar í grunnskóla og mynda þannig samfellu á milli skólastiganna tveggja. Farnar eru nokkrar heimsóknir bæði á haustönn og vorönn.

Barnið heimsækir þann skóla sem það á að fara í samkvæmt búsetu.

 

Afmæli

Ef foreldrar vilja halda upp á afmæli barns í leikskólanum, vinsamlega gerið það í samráði við viðkomandi deildarstjóra.

Við hvetjum foreldra til að hugsa fyrir því að sykurneysla í þessum tilfellum sé í lágmarki.  Popp, ís eða snakk vekja alveg eins mikla ánægju.  Vinsamlega stillið kostnaði í hóf.

 

Boðskort

Í tengslum við afmæli er ekki leyfilegt að setja boðskort í hólf einstakra barna.  Þetta veldur sorg og leiðindum hjá þeim börnum sem ekki fá boðskort.  Við erum tilbúin að láta í té símanúmer eða heimilisföng barna ef foreldrar óska, í þessu sambandi.

 

Upplýsingar

Óvæntar uppákomur og dagleg skilaboð til foreldra eru skráð á upplýsingatöflur sem hanga uppi í fataherbergjum leikskólans.  Þar eru líka dagbækur, sem skrifað er í hvað var markverðast þann daginn.   Einnig er gott að fylgjast með á heimasíðunni okkar sem er akranes.is/vallarsel.

ATHUGIÐ AÐ FYLGJAST VEL MEÐ.

 

Friðartími

Hann er frá kl. 09.00-11.00.  Vinsamlega komið með börnin fyrir þann tíma.  Einnig biðjum við foreldra að koma ekki með börnin í miðjum matartímum.

 

Þagnarheit

Vert er að geta þess að starfsfólk leikskólans er bundið þagnarheiti.  Allar upplýsingar sem gefnar eru um barnið eru trúnaðarmál.  Þagnarheitið er í gildi þó starfsmaður láti af störfum.  Ennfremur bendum við góðfúslega á að foreldrum er ekki heimilt að tala um það sem þeir upplifa eða heyra sjálfir varðandi önnur börn, fjölskyldur þeirra eða starfsfólk þegar þeir koma í leikskólann.

 

Að lokum…. 

 

Þið eruð ávallt velkomin að koma og vera með í daglegu starf í leikskólanum. Hafið bara samband við deildastjórann ykkar til að ákveða hvaða tími hentar ykkur báðum.