Tónlist

Tónlist í Vallarseli

Í leikskólanum Vallarseli hefur verið lögð aðaláhersla á tónlistarstarf með börnunum.  Leikskólinn hafði starfandi  tónlistarkennara sem hélt utan um tónlistarstarfið með öllum börnum leikskólans frá árunum 1998 – 2008. Fyrstu árin var starfið í höndum Bryndísar Bragadóttur en frá 2006-2008 var það í höndum Katrínar Valdísar Hjartardóttur. Haustið 2009 urðu þær breytingar að ekki er lengur starfandi tónlistakennari við leikskólann heldur er tónlistarstjóri á hverri deild sem sér um skipulagningu og framkvæmd á tónlistinni á sinni deild. Kennslan er þannig sett upp að unnið er í litlum hópum og breytilegt eftir aldri við hvaða viðfangsefni börnin kljást við. Líkt og gefur að skilja er unnið með einfaldari verkefni með yngstu börnunum en þau verða flóknari og flóknari eftir því sem börnin eru eldri. Hópavinna fer fram einu sinni í viku og síðan er unnið áfram með verkefnin inni á deildum út þá vikuna.

Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla á tónlistaruppeldi í leikskóla að stuðla að því að barn þroski með sér

  • næmi fyrir hljóðum, hreyfingu og hrynjanda
  • frumkvæði og frjálsa, skapandi tjáningu og túlkun á tónlist

 

Við viljum stuðla að sem mestum alhliða þroska hvers barns og notum við tónlistina sem verkfæri til þess. Kennt er í gegnum leikinn, þannig að börnin eru ekki endilega meðvituð um að það sé verið að kenna ákveðna hluti, í stað þess upplifa þau skemmtilega tónlistarstund. Reynt er að virkja sérhvern einstakling þannig að allir fái sem mest út úr hverri kennslustund. Þjálfunin inn á deildum yfir vikuna er mjög mikilvægur þáttur í starfinu og leggur grunninn að því að hægt sé að leggja inn nýja hluti, sem byggja ofan á það sem áður var þjálfað. Í kennslunni er m.a. unnið með námsefnið Klapp Stapp. Lykilorðin í tónlistarstarfinu eru fjölbreytni, gleði og gaman.

 

Við nýtum okkur reynsluna af því að starfa með báðum tónlistarkennurum okkar og tókum það besta frá báðum. Mikil reynsla er í leikskólanum og vorum við spenntar að standa á eigin fótum. Við skipuleggjum okkur fyrirfram og hittast tónlistastjórar reglulega til að meta tónlistarstarfið.  Við byggjum tónlistartíma upp á þann hátt að við byrjum á söng, síðan er unnið með hljóðfæri og er sú vinna meginvinnan í tónlistartímanum. Síðan endum við á leik sem m.a. byggist á hreyfingu, hlustun, takti, rytma o.frv.  Þegar við byrjum að leggja inn hljóðfæravinnu er byrjað á því einfalda, eggjum, stöfum og trommum. Einnig notum við líkamann, t.d. að slá á lær, stappa eða klappa. Síðan eftir því sem börnin þroskast og verða hæfari bætast fleiri hljóðfæri við eins og tréspil, klukkuspil, tréspil, þríhorn og mörg fleiri smáhljóðfæri.

Viðfangsefni tónlistarstarfsins eru m.a.: söngur, hljóðfæri og hlustun.

 

Söngur

Boðið er upp á fjölbreytt val hreyfisöngva sem tengjast gjarnan líkamanum og reynsluheimi barnanna. Reynt er að tengja þá því sem verið er að vinna með í leikskólanum (þema) hverju sinni. Börnin læra einnig þulur og nafnaleiki, hefðbundin þjóðlög, bæði íslensk og erlend, hreyfisöngva og söngva með flóknari textum. Mikið er notast við undirleik við söng barnanna sem er þá samþættur með hljóðfæra-undirleik barnanna sjálfra.

Undanfarin misseri höfum við lagt mikla áherslu á eldri íslensk dægurlög sem hafa gert mikla lukku.

 

Hljóðfæri

Þegar unnið er með hljóðfæri er byggt ofan á fyrri þekkingu barnanna og bætt ofan á hana. Ásláttarhljóðfæri eru notuð til að þjálfa tilfinningu fyrir púls og því að spila á slagverk í hópi. Mikilvægt er að kenna hvenær á að bíða og hvenær má spila t.d. með stoppleikjum og verða verkefnin flóknari eftir því sem börnin eldast. Lögð er áhersla á markvissa rytmaþjálfun þar sem börnunum er kennt að þekkja muninn á púls og hryn. Farið er í hreyfileiki þar sem ,,líkamshljóð”(t.d klapp og ásláttur á læri) eru notuð og/eða hljóðfæri. Árlega fá elstu börnin hljóðfærakynningu frá kennurum og nemendum úr Tónlistarskóla Akraness.  Sú kynning er í tengslum við ferð þeirra á sinfóníutónleika barnanna.  Þá eru þau búin að fá innsýn inn í þau hljóðfæri sem leikið er á þar.  Leikskólinn á auk þess mjög vandað og fjölbreytt safn hljóðfæra sem notuð eru markvisst í kennslu barnanna auk þess sem börnin þjálfast á því að spila á slagverk í hópi og því að koma fram á tónleikum.

 

Hlustun

Hlustun er m.a. notuð til að kenna grunnhugtök í tónlist. Þar eru börnin að læra að þekkja lík og ólík hljóð, kynnast ólíkum hljóðfærum, menningu og söngvum. Hlustunin er ekki endilega tengd hreyfingu en börnin læra leiki sem byggja á því að þekkja einföld hljóð auk þess að hlusta á fjölbreytt tóndæmi sem gjarnan eru þá tengd hreyfingum og dansi.

 

Tónleikar:

Skapast hefur sú hefð að halda tónleika með elstu deild Vallarsels. Á vordögum 2008  vorum við með tónleika í Tónbergi með „litlu lúðrasveit “ Tónlistarskólans undir stjórn Önnu Nikulásardóttur og Katrínar Valdísar Hjartardóttur. Á tónleikunum var frumflutt verkið Risaeðlusvítan eftir Paul Jennings.

Á Vökudögum  2008 var elsta deildin með tónleika þar sem  m.a. var á dagskrá  Þúsaldaljóð eftir bræðurna Sveinbjörn og Tryggva Baldvinssyni ásamt fleiri lögum en þá voru engir samstarfsaðilar því  í leikskólanum voru tvær elstu deildir og fylltu þau sviðið.

Á Vökudögum 2009 vorum við með tónleika með Hljómi, kór eldri borgara á Akranesi,  undir stjórn Katrínar Valdísar Hjartardóttur tónlistakennara og Aðalheiðar Þráinsdóttur, deildastjóra.

Við leggjum mikinn metnað í tónleikana okkar og fer mikill undirbúningur í þá. Það kemur mörgum á óvart hversu langa og flókna texta börnin geta lært og sungið. Á svona tónleikum fylgir því að mikill agi þarf að vera á hópnum og vita allir hvað til þeirra er ætlast.