Uppeldi sem virkar

Uppeldi sem virkar

Um hegðun ungra barna

GAGNLEGIR PUNKTAR UM HEGÐUN UNGRA BARNA

  • Börn vita ekki sjálfkrafa hvaða hegðun er æskileg og hver ekki. Þess vegna skiptir máli að kenna börnum hvaða hegðun er æskileg og góð.  
  • Börn læra hvort hegðun þeirra er æskileg eða ekki út frá því hvernig fólkið í kringum þau bregst við hegðun þeirra. Foreldrar geta kennt barninu sínu æskilega hegðun með því að bregðast við slíkri hegðun á jákvæðan hátt. 
  • Gott er að grípa þau tækifæri sem gefast til að gefa barninu jákvæða athygli fyrir æskilega hegðun. Jákvæð athygli getur verið hrós, bros til barnsins, faðmlag, leikur og annað sem barninu finnst skemmtilegt. Oft gleymist að veita barni athygli þegar það er hljótt og að dunda sér sjálft. Algengt er að barn sem sýnir erfiða hegðun fái neikvæða athygli fyrir það. Það getur því gerst að barn fái oftar athygli fyrir erfiða hegðun en góða. Þetta getur orðið til þess að erfiða hegðunin verði algengari en sú æskilega. Munið því að veita æskilegri hegðun athygli. Foreldrar styrkja sjálfstraust barnsins með því að vera dugleg að benda þeim á það sem þau gera vel.
  • Við vitum ekki hvort barn skilur öll orðin sem við notum við það. Þess vegna er mikilvægt að treysta ekki eingöngu á talað mál til að kenna nýja hegðun. Gott er því að kenna börnum nýja hegðun með því að sýna þeim hvernig þau eiga að hegða sér.
  • Þegar fyrirmæli eru gefin er mikilvægt að vera nálægt og ná augnsambandi við barnið. Einnig þurfa fyrirmæli að vera stutt og einföld.
  • Þegar barn sýnir erfiða hegðun er mikilvægt að muna að barnið er ekki óþekkt til þess að ögra foreldrum sínum. Oft kann það ekki aðrar leiðir til þess að fá það sem það þarf. Því skiptir máli að finna út hvað barnið vill með þessari erfiðu hegðun og kenna því æskilegri leið til að fá það sem það þarf.
  • Ef foreldri vill fá barn til að hætta erfiðri hegðun er gott að segja barninu hvað það á að gera því annars er ekki líklegt að barnið átti sig á því sjálft. Gott er að hafa í huga að eftirfarandi orð hjálpa barninu ekki að hætta erfiðri hegðun: ,,ekki” og ,,hættu þessu”.
  • Gott er að útskýra fyrir barni hvers er ætlast til af því, en hafa setningar ávallt stuttar og einfaldar.
  • Við uppeldi barna er mikilvægt að skoða hvort barnið hafi farið eftir fyrirmælum foreldris. Ef fyrirmæli eru gefin án þess að þeim sé fylgt eftir af foreldrinu læra börn síður að þau eiga að gera eins og foreldrið segir þeim. Þegar foreldri skoðar hvort barnið hafi farið eftir fyrirmælum skiptir máli að sýna því jákvæða athygli ef það hefur farið eftir fyrirmælunum en minna það á og aðstoða það ef barnið hefur ekki gert eins og það var beðið um.

Bára K. Gylfadóttir, sálfræðingur, Þroska- og hegðunarstöð, 2009.

https://www.heilsugaeslan.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3661