Réttur barna til náms

Réttur barna til náms/skóli án aðgreiningar

Leikskólar starfa allir eftir lögum um leikskóla. Starf kennara í leikskólum byggist á lögum um leikskóla og unnið er eftir Aðalnámskrá leikskóla. Ný aðalnámskrá leit dagsins ljós árið 2011 og eru allir skólar að uppfæra skólanámskrár eftir henni. Aðalnámskráin styður nám án aðgreiningar en þar stendur að sérfræðiþjónusta sveitarfélaga í leikskólum skuli stuðla að jafnrétti til náms og vellíðan allra barna. Nám leikskólabarna skal byggjast á jafnrétti og er markmið jafnréttismenntunar að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis (Aðalnámskrá leikskóla, 2011).

Í lögum um leikskóla segir  í 22. gr. að börn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, að mati viðurkenndra greiningaraðila, eiga rétt á slíkri þjónustu innan leikskólans (Lög um leikskóla nr. 90/2008).

Öll börn eiga rétt á innihaldsríku lífi og þau fái að njóta æsku sinnar. Í 23. grein Barnasáttmálans segir mjög skýrt að andlega eða líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs lífs, við aðstæður sem tryggja virðingu þess og stuðla að sjálfsbjörg og virkri þátttöku í samfélaginu (Alþingi, e.d.). Salamanca  yfirlýsingin kveður á um að einstaklingar með sérþarfir á sviði menntunar skuli hafa aðgang að almennum skólum og þar beri að mæta þörfum þeirra með kennsluaðferðum sem tekur mið af barninu (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, e.d.).

Starfsreglur varðandi sérkennslu  í leikskólum á Akranesi hveða á um: Öll börn hafa jafna  möguleika til að þroskast og að nýta leikskóladvölina með því að veita þeim, sem þess þurfa, sérstaka aðstoð“ (Akraneskaupstaður, e.d.).

Með hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar er vísað til menntakerfis þar sem allir nemendur eru virkir þátttakendur í skólasamfélagi sínu, burtséð frá styrkleikum þeirra, veikleikum eða stimplum (Ferguson, 2008; Sapon-Shevin, 2007).  Samkvæmt Nieto (2010)  felur hugmyndafræðin í sér félagslegt réttlæti fyrir öll börn þegar þeim eru veitt jöfn tækifæri og jafnan aðgang að námsferlinu. Hugmyndafræðin um skóla án aðgreiningar byggir á félagslegum líkönum þar sem gengið er út frá því að margbreytileiki fólks sé hið hefðbundna viðmið en ekki annað staðlað norm (Hermína Gunnþórsdóttir, 2010).

Í Aðalnámskrá leikskól (2011) er lögð mikil áhersla á jafnrétti og félagslegan skilning á því hvað felst í fötlun. Þar er talað um að áskoranir fólks með fötlun eigi rætur sínar að rekja í umhverfinu en ekki í skerðingu einstaklingsins. Einnig segir að leikskólum beri að leggja áherslu á skóla án aðgreiningar í öllu skólastarfi en í því felst m.a. að vera meðvitaður um áhrif umhverfis á börn og skoða þarf vandlega hvað þarf að leggja áherslu á, hvað þarf að varast og hvað þarf að efla.