Hljóm-2

Hljóm-2 er próf – greiningartæki í leikjaformi sem kannar hljóðkerfisvitund elstu barnanna í leikskólanum.  Höfundar eru talmeinafræðingarnir Ingibjörg Símonardóttir og Jóhanna Einarsdóttir og Amalía Björnsdóttir aðferðafræðingur.  Byrjað var að vinna að undirbúningi Hljóm haustið 1996.  Þá fór í gang viðamikil undirbúnings- og rannsóknarvinna sem náði til 1.500 leikskólabarna um land allt.  Prófin framkvæmdu leikskólakennarar og leikskólasérkennarar.  Einnig komu sálfræðingar að ákveðnum þáttum.  Þó að þetta próf sé unnið við og eftir ísl. aðstæðum, þá var haft til hliðsjónar efni úr svipuðum athugunum sem gerðar hafa verið erlendis.

Með hljóðkerfisvitund er átt við að barnið geri sér grein fyrir að tungumál hefur ákveðið form og það skiptir ekki bara máli hvað er sagt, heldur líka hvernig það er sagt.  Talað orð hefur ákveðna hljóðfræðilega uppbyggingu.  Dæmi:  Barn sem svarar að ekki heyrist /s/ í sól, hefur ekki enn þroskað þennan hæfileika sem heitir hljóðkerfisvitund.  Skemmtisaga:  Barn var spurt að þessu og svaraði “nei, hún talar ekki”.  Og barn var líka spurt heyrist /m/ í mús og svaraði “nei hún tístir”

Lengi hefur verið vitað um fylgni á milli lélegrar hljóðkerfisvitundar og lestrarerfiðleika og svo í kjölfarið á þeim stafsetningarerfiðleika.

Flest börn eru komin með allvel þroskaða hljóðkerfisvitund við fjögurra ára aldur.  Undirstaðan undir góða hljóðkerfisvitund er skipulagður leikur með rím og leikur að orðum og er þess vegna aldrei of oft kveðið mikilvægi þess að halda því á lofti í starfinu okkar.

Hljóm nær yfir aldursskiptinguna 4 ára, 9 mán og 16 daga til 6 ára, 1 mán og 15 daga.  Prófinu fylgja mjög nákvæmar útskýringar á fyrirlögn og hvaða orð eru notuð í fyrirlögninni og börnin fá góðar útskýringar og eru æfð áður en prófið er lagt fyrir.  Eins líka ef illa gengur hvenær á að hætta í tilteknu atriði.  Líka er mælt með ákveðnum aðstæðum við fyrirlögnina.  Gefin eru ákv. stig fyrir hvert rétt svar og reiknað út úr hverju atriði og síðan er heildarstigafjöldinn reiknaður út. Útreikningar eru síðan miðaðir við það aldursbil sem barnið er á þegar prófið er lagt fyrir og barnið staðsett á ákv. stað eftir getu.

Í Hljóm eru lögð fyrir 7 prófatriði sem öll gefa vísbendingar um ákveðna áhættu eða ekki.  Þau skiptast í eftirfarandi flokka:

  • Rím,sem reynir á heyrnræna úrvinnslu, (ekki myndræna eins og við erum vön)
  • Samstöfur,annað orð yfir atkvæði, þar sem barnið þarf að klappa atkvæðin í ákveðnum orðum
  • Samsett orð,þar sem barnið heyrir tvö orð  og á að setja saman í eitt.
  • Hljóðgreining,þar á barnið að hlusta eftir ákveðnum hljóðum í orðum.
  • Margræð orð,þar á að greina hvaða tvær myndir af fjórum nota orð sem hljóma hljóðfræðilega eins eða næstum eins.
  • Orðhlutaeyðing,þar þarf að hlusta eftir hvaða orð verður eftir ef fyrri hluta samsetts orðs er sleppt.
  • Hljóðtenging,þar verður barnið að tengja 2-3 málhljóð heyrnrænt í orð.

Reiknað er með að prófa öll börn í leikskólanum þegar þau hafa náð þessum tiltekna aldri.  Sum börn þarf að prófa oftar en einu sinni, bæði vegna þess að þau eru hugsanlega alveg á mörkum í aldri og eins líka ef illa hefur gengið vegna t.d. utanaðkomandi aðstæðna í próftímanum.  Stundum koma börn illa út úr 1 eða 2 atriðum en vel úr hinum, og þá á að vera hægt að meta það þannig að bíða kannski í 1-2 mánuði og prófa þá aftur í þeim þáttum sem gengu illa, áður en farið er að vinna með eða vísa barninu til sérfræðinga.

Sérkennslustjóri og/eða deildastjórar koma til með að prófa öll börn á elstu deild og vinna úr niðurstöðum. Þau börn sem koma út með slaka eða mjög slaka getu er boðið upp á að fara í  málörvunarhóp sem hittist tvisvar í viku og þá vinnum við markvisst í að þjálfa hljóðkerfisvitundina. Eftir 3 mán. vinnu, er barnið Hljóm-prófað aftur og það fær aftur slaka útkomu er skoðað í samráði við foreldra og deildarstjóra hvort beiðni sé lögð inn til sérfræðings.