Móttökuáætlun tvítyngdra barna

Móttökuáætlun

Móttaka tvítyngdra barna

Áður en tvítyngt barn byrjar í aðlögun setjum við í fataherbergi fána barnsins ásamt því að vera boðið velkomið/góðan daginn á þeirra tungumáli.

Fljótlega eftir aðlögun fá öll börn heim með sér myndir af:

  • Öllum börnum á deildinni ásamt nöfnum þeirra.
  • Leikskólanum.
  • Starfsmönnum deildarinnar ásamt nöfnum þeirra.

Þegar börn byrja í aðlögun á yngstu deild  eru foreldrar þeirra boðaðir á kynningarfund í júní. Þar er leikskólinn og starf deildarinnar kynnt fyrir nýjum foreldrum. Leikskólinn býr svo vel að hafa pólskan leikskólakennara starfandi og er hann okkar tengiliður við pólskumælandi foreldra.  Hann tekur þátt í þessari kynningu á haustin ef von er á pólskum foreldrum.

Fyrsta viðtal

Á aðlögunartímanum er sest niður með foreldrum( deildarstjóri) og farið yfir ýmis pappírsmál er varða leikskólagönguna eins og upplýsingar um móðurmál, menningu og fleira. Eyðublað varðandi fyrsta viðtal er lagt fram og þar er óskað eftir upplýsingum um m.a hvort barnið sé fætt á Íslandi, hvernig tungumálakunnátta barnsins er, bæði í íslensku og móðurmáli.                                                    Ef þörf er á er kallað til túlks sem Akraneskaupsstaður býður upp á.                                                                                                                                                                                                                                            Ef um pólskt barn er að ræða nýtum við tengilið okkar ef hringja þarf í foreldra einhverra hluta vegna. Ef foreldrar tala ensku sér deildarstjóri sjálfur um þessi daglegu samskipti.

Myndaorðabók

Unnin er bók fyrir tvítyngdu börnin í samvinnu við foreldra sem inniheldur myndir, gögn og upplýsingar um þau og nærumhverfi þeirra. Í bókinn má vera:

  • Myndir að heiman: Það getur verið gott fyrir börnin að hafa ljósmyndir með sér í skólann. Til dæmis myndir af foreldrum, sjálfu sér, afa og ömmu, myndir að heiman (frá sínu landi), vinum að heiman, myndir frá leikskólanum heima, eða myndir af uppáhalds hlut, dýrum eða stað. Hér verða foreldrar að finna hvað hentar best og mikilvægt er að biðja foreldra að skrifa hverjir eru á myndinni.
  • Myndir úr  Boardmaker:  Skrifað er fyrir neðan myndirnar orðin á íslensku og á viðkomandi tungumáli og fáum aðstoð foreldra við það, ef þörf er á.

Sjónrænt skipulag

Sjónræn stýring þarf að vera til að gera daginn skiljanlegri og fyrirsjáanlegri fyrir börnin. Með því að hafa sjónrænt dagskipulag, við matarborð, fataherbergi og WC bætum við aðstæður fyrir börnin. Umhverfið er útskýrt á myndrænan hátt, t.d með Boardmaker, táknmyndum (TMT) eða ljósmyndum (eða blanda öllu saman) þannig að auðvelt sé að benda og nefna. Í matartíma fær barnið mottu sem á eru myndir af því sem er í matinn hverju sinni. Þarna gefst barninu tækifæri til að gefa til kynna með bendingum í upphafi hvað það vill, hvort það vilji meira og þá hverju.  Þetta gefur einnig tækifæri til að setja orð á allar myndir og athafnir sem fram fara í matartímanum og gefur einnig mgöleika á að ræða myndirnar og annað.  Notast er mikið við myndir og forritið Bitsboard er gott tæki í vinnu með tvítyngdum börnum á hvaða aldri sem er.  Í fataherbergjum eru myndir af fötum börnin eiga að fara í, myndir af leikföngum inni í leikherbergjum og af mataráhöldum og mat þar sem er borðað, svo fátt eitt sé nefnt. Gott er að setja upp samskiptatöflu með Boardmaker myndum og þannig geta börnin bent á það sem þeim vantar eða langar, líður eða annað sem þau vilja tjá sig um en hafa ekki orðin til þess.  Mikilvægt er að hafa myndir yfir tilfinningar og þarfir eins og svangur, heitt, glaður o.fl.

TMT- tákn með tali

TMT er notað á deildum með öllum börnum. Þegar lögð eru inn ný orð er gott að senda þau einnig heim í myndformi (tmt.is) þá geta foreldrar einnig æft sig. Þegar lögð eru inn ný orð (hugtök eða smáorð) þarf að leggja mikla áherslu á þau orð í öllu starfinu.

Annað

Í fataherbergi eru hengdir upp þjóðfánar landanna sem börnin eru frá og kveðjur eins og góðan daginn/velkominn á þeirra tungumáli. Einnig er leitast við að eiga landslagsmyndir frá löndunum, lítinn fána, ferðamannabæklinga, kort, frímerki og annað þjóðlegt.  Þetta þarf að vera samvinnuverkefni heimili og skóla. Hægt er að biðja foreldra að koma með slíkt til okkar eftir ferð til heimalandsins.

Ef börnin eiga bækur, geisladiska, tölvuleiki eða eitthvað í þeim dúr á sínu tungumáli væri gaman að fá það lánað í leikskólann.

Kennarar nýta upplýsingablöðin frá foreldrum um sérstaka daga ársins í þeirra menningu.