Málörvun með tvítyngdum börnum

Málörvun með tvítyngdum börnum

Það er langtímaverkefni fyrir börn að læra íslensku sem annað mál og þau þurfa markvissa kennslu og aðstoð við það. Mikilvægt er að tvítyngdu börnin fylgi hinum börnunum og séu ekki tekin að óþörfu út úr hópnum. Þau fá meiri örvun og kennslu ef þau fylgja hinum börnunum í einu og öllu. Þegar þau eru tekin úr hópnum missa þau af mikilvægri málörvun vegna þess að tungumálið lærist í samhengi við athafnir og samskipti þar sem orð eru sett á hluti, athafnir og reynslu jafnóðum.

Mikilvægt er að vinna með tvítyngdum börnum í minni hópum þar sem þau hafa málfyrirmynd (íslenskt barn) til að spila við eða leika með. Höfum í huga að samskipti þurfa að vera gagnkvæm og samræður byggja á því að skiptast á að tala.  Í samræðum þarf starfsfólk því að gefa barninu tækifæri til að hugsa sig um og tjá sig.  Börn þurfa mál til að þróa hugsun sína og því meira sem þau hugsa því meira þróast málið.  Á seinni árum leikskólaverunnar er farið að leiðrétta framburð og málfræði barnsins.  Starfsfólk þarf hins vegar að vera góð málfyrirmynd og hvetja barnið og víkka málnotkun þess.  Öll dagleg samskipti eru mikilvæg og að fara á gólfið til barnsins, leika við það og hvetja önnur börn til að vera með.

 

 

Önnur verkefni

 • Að spila málörvandi og málhvetjandi spil og verkefni.
 • Að fara í leiki sem gera kröfu á að börnin tjái sig.
 • Að tala í stuttum og skýrum setningum og endurtaka oft.
 • Að setja orð á athafnir
 • Að taka barnið oft í fangið og skoða með því myndabækur með einföldum og skýrum myndum.
 • Að vera í leik með barninu, t.d hlutverkaleik, búðarleik, afmælisleik ofl.
 • Að nota áþreifanlega hluti s.s. sækja fötin þeirra í forstofuna, ná í áhöld í eldhúsið-hiti- kuldi. Hafa í huga Learning by doing- að þau læra með því að gera, snerta og vinna.
 • Vertu viss um að barnið sjái andlit þitt þegar þú talar við það, ná augnsambandi.
 • Að hlusta á barnið og bregðast við leik þess að málinu.
 • Að leika við barnið og nota leiki sem gera ráð fyrir að þið skiptist á.
 • Að sýna barninu myndir og hluti þegar talað er við það svo að það geti tengt saman orð og hluti/myndir.
 • Notaðu endurtekningu og eftirhermu í ríku mæli.
 • Sjáðu barninu fyrir góðum málfyrirmyndum.
 • Skapaðu aðstæður fyrir samtöl um það sem verið er að gera hverju sinni um einstök viðfangsefni og hluti.
 • Hvettu barnið til að segja ákveðin orð.
 • Láttu barnið hafa harðspjaldabækur og tímarit til að skoða.
 • Lestu fyrir barnið og segðu því sögu á hverjum degi.
 • Kenndu barninu einföld sönglög og þulur.
 • Gefðu barninu næga líkamlega nálægð og snertingu.
 • Sjáðu til þess að barnið finni gleði í leik með tungumálið.
 • Skipulegðu hópavinnu fyrir barnið í litlum hópi með einu til þremur öðrum börnum.
 • Fáðu eins mikla aðstoð hjá tvítyngdu starfsfólki og foreldrum og hægt er að koma við.
 • Hvettu foreldra tvítyngdra barna til að tala móðurmál sitt heima fyrir  og lesa fyrir börnin sín daglega.
 • Lærðu orð og orðasambönd, rímur og sönglög á móðurmáli barnsins.