Fjölmenning í Vallarseli

Fjölmenning í Vallarseli

 

Á síðustu árum hefur fjöldi tvítyngdra barna aukist til muna í Vallarseli og nauðsynlegt er að haga daglegu starfi þannig að það henti öllum börnum.  Öll börn eru einstök,  með sinn persónuleika og einkenni. Við viljum fagna fjölbreytileika barnanna og horfa á hvað hvert og eitt barn hefur fram að færa. Með því að skapa okkur fjölmenningastefnu þá horfum við á að gera öllum börnum jafnan rétt undir höfði, hvort sem þau eru íslensk eða erlend. Horft er á mikilvægi jafnréttis, lýðræðis og mannréttinda og viljum við að það skíni í gegnum allt starf okkar.

Fjölmenningarteymi er í Vallarseli og hlutverk þess er að afla og miðla þekkingu og upplýsingum sem snúa að þessum málaflokki til starfsfólks og foreldra.

Í nýrri Aðalnámskrá leikskóla (2011) segir að markmið jafnréttismenntunar sé að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis.

 

Markmið

 

Í Vallarseli er unnið eftir nýrri Aðalnámskrá leikskóla (2011) en þar segir m.a. leikskólastarf skal byggjast á jafnrétti, virðingu fyrir margbreytileika mannlífsins og öðrum menningarheimum. Þar stendur einnig að virða skuli rétt allra sem þar dvelja, óháð kynferði, bakgrunni, aðstæðum eða getu og leitast við að koma til móts við þarfir allra.

Markmiðin eru eftirfarandi:

  • Að auka aðgengi  foreldra tvítyngdra barna í Vallarseli að upplýsingum og öðru sem snýr að leikskólastarfinu.
  • Að auka skilning og víðsýni starfsmanna á menningarlegum fjölbreytileika.
  • Að virða alla foreldra sem uppalendur og sérfræðinga um sitt barn.
  • Að virða menningu barna og foreldra og sjá tækifærin í margbreytileikanum.
  • Að vinna markvisst að því að auðvelda tvítyngdum börnum að aðlagast íslenskri tungu og menningu.
  • Að allir hafi sömu möguleika á námi og í samskiptum.
  • Að horfa á fjölbreytileikann sem tækifæri til öflugs skólastarfs þar sem allir fá að taka þátt á eigin forsendum og hafi jafnan rétt til náms og njóti virðingar.