Deildarnámskrá

lesa

Deildarnámskrá Stekks

Stekkur skólaárið 2017-2018

Árgangur 2013

 

Skólaárið 2017-2018 eru á Stekk 20 börn fædd árið 2013. Stöðugildi starfsmanna deildarinnar reiknast út frá fjölda barna ár hvert, sérkennslu svo og undirbúningstímum.

Í vetur verða starfsmenn deildarinnar:

 • Íris Guðrún Sigurðardóttir deildarstjóri í 100% stöðu.
 • Margrét Arna Aradóttir leikskólakennari í 100% stöðu, v
 • Ása Björg Gylfadóttir leiðbeinandi í 100% stöðu

Í Vallarseli er unnið samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla þar sem námssviðin eru alls sex. Þau eru málrækt, tónlist, hreyfing, myndsköpun, náttúra og umhverfi, menning og samfélag. Í gegnum allt okkar starf á Stekk erum við að vinna með áhersluþætti Aðalnámskrárinnar.  Í starfinu er lögð áhersla á að fylgja námssviðunum eftir en í hópastarfinu eru þau höfð að leiðarljósi.

Meginmarkmið samkvæmt Aðalnámskrá eru m.a.

 •  að efla siðgæði og leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélag
 • að gefa börnum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskost
 • að rækta tjáningar- og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt.

Námssvið leikskólans:

Í Vallarseli er unnið með öll námssvið leikskóla þ.e. hreyfingu, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúru og umhverfi og menningu og samfélag.

Skipulagt starf fer fram í tveimur hópum í vetur.

 

Tónlist

Tónlistin er okkar sérstaða,Við þjálfum okkur í hlustun, söng, næmni fyrir hryn og hljóðum og grunnhugtök í tónlist. Þá er farið í leiki sem byggjast  á tónlist og hreyfingu. Börnin fá að spila á hin margvíslegustu hljóðfæri.  Unnið er með tónlistina í samveru og hópastarfi.  Í vetur ætlum við m.a að læra um hljóðfærin, fara í hljóðfærabingó, læra um hratt og hægt og margt fleira. Sallý sér um tónlistina og verður hún á fimmtudögum fyrir hádegi.

 

Málörvun                                                                                        

Unnið verður með námsefnin Markviss málörvun og Ljáðu mér eyra auk heimatilbúinna verkefna. Áhersla er lögð á að efla hlustun, einbeitingu, eftirtekt, frumkvæði, tjáningu, hugtakaskilning og það að fara eftir munnlegum fyrirmælum allt í gegnum leikinn. Kenndar verða þulur og úrtalningarþulur, unnið með hlustun og rím. Guðrún Erla sér um málörvunina og hún verður á fimmtudögum.

Leikfimi                                                                                       

Við förum í salinn á leikskólanum einu sinni í vikuþ  Þar er áhersla lögð á að börnin læri að fara eftir munnlegum fyrirmælum, læri einfaldar reglur og það að taka tillit til annarra. Einnig að efla hreyfigetu þeirra, styrk, þol og úthald.  Nú þurfa allir að koma með leikfimisföt ( stuttbuxur og stuttermabol eða leikfimisboli) í bakpoka. 

Stig af stigi                                                                    

Stig af stigi er kennsluefni fyrir 4-10 ára börn í lífsleikni.  Námsefninu er skipt upp í þrjá hluta og er sá fyrsti ætlaður tveimur elstu árgöngunum í leikskóla og fyrsta bekk í grunnskóla.  Á þessum árum standa börnin frammi fyrir mörgum vanda.  Þau kynnast margs konar nýju umhverfi, nýjum félögum og öðrum fullorðnum.  Börn læra hegðun með því að herma eftir, æfa og styrkja færni sína. Með námsefninu Stig af stigi er börnum markvisst kennt að vinna með hegðun og viðbrögð og æfa þau sig með því að endurtaka aðstæður.  Mikilvægt er að foreldrar barnanna taki þátt í þessari markvissu vinnu.    En lífsleikninámið er ekki bara bundið við þann tíma sem við erum í lífsleiknistund, heldur er eftirfylgd í daglegu starfi mjög mikilvæg.  Við notum hvert tækifæri sem gefst til að minna á hvað við ræddum í lífsleikni ef upp koma aðstæður þar sem börnin geta notað Stig af stigi til að leysa úr vanda eða skilja og lesa í líkamstjáningu eða tilfinningar annarra.  Við hvetjum ykkur foreldra / aðstandendur til að gera slíkt hið sama. Stig af stigi byrjar um áramót.

 

Samvera

Í samveru leggjum við áherslu á rólega stund, þar sem við lesum, syngjum, förum í leiki og lærum tákn með tali (TMT). Þar leggjum við áherslu á að hver og einn einstaklingur fái að njóta sín með því að fá að tjá sig um líðan sína, hugsanir og tilfinningar og aðrir sýni þá tillitsemi að vera virkir hlustendur og hlutaðeigendur. Einnig að þjálfa með börnunum færni í að hlusta og einbeita sér, fylgja söguþræði og svara einföldum spurningum úr texta. Farið er yfir hvaða vikudagur og mánaðardagur er.

Val                                                                                                                                                                      

Valið er rammi utan um frjálsa leikinn. Þar geta börnin valið sér þau svæði sem þau vilja leika sér á. Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og mikilvægasta náms- og þroskaleið allra barna. Í leik læra þau margt sem enginn getur kennt þeim. Við bjóðum alltaf uppá sömu svæðin en reynum að  hafa fjölbreyttan efnivið.   Val kemur á móti skipulögðu starfi og er nánast alla daga.

Tákn með tali (TMT)                                                                                                                                    

Tákn með tali (TMT) er tjáningarform ætlað heyrandi fólki sem á við mál- eða talörðugleika að stríða. Það byggist á samblandi af látbragði, táknum og tali. Börnin læra táknið fyrir myndina sem þau eiga, þau syngja lög með táknum og einnig læra þau einföld tákn. Táknin eru notuð sem stuðningur við talmál og táknuð eru lykilorð setninga.  Við leggjum fyrir tmt í samveru.

Einingakubbar                                                                                                                                                    

Kubbar eru skapandi efniviður og það sem börn byggja minnir oft á fyrirmyndir úr umhverfi þeirra, t.d. hús, bíll, flugvél o.s.frv.  Kubbabyggingar eru mikilvægar fyrir þróun vitsmunaþroskans. Í kubbaleik gefst gott tækifæri fyrir börn að endurskapa umhverfi sitt og þær hugmyndir sem þau hafa um það. Þessi hæfileiki til að upplifa og skapa er mikilvæg undirstaða afstæðrar hugsunar.   Hönnun kubbanna er stærðfræðilega rétt, því öðlast börn sem leika með þá skilning sem er grundvöllur rökrænnar hugsunar. Þau læra um stærð, lengd, form, fjölda, röðun, rými og þyngd þegar þau byggja úr kubbunum og einnig við tiltektina. Einingakubbar eru í val

Ritmál:                                                                                     

Ritmálið hefur verið gert sýnilegt á deildinni með því að merkja svæði, leikefni og annað sem einhvern tilgang hefur að merkja. Ritmál er eðlilegur þáttur í heimi barns. Það er alls staðar í umhverfinu t.d. á götu- og auglýsingaskiltum, bókum og blöðum svo eitthvað sé nefnt. Barn lærir hvernig ritmálið virkar þegar það sér fullorðna bregðast við ritmálinu og lesa. Það að skilja að prentað mál hefur merkingu er fyrsta stigið í að læra að lesa og skrifa þ.e. myndun læsis.  Valspjöl eru notuð og eins æfum við okkur í að skoða og skrifa stafi.

Stærðfræði:                                                                                                                                                                      

Inn í allt leikskólastarf fléttast stærðfræði, meðvitað og ómeðvitað.  Þegar barnið spilar, púslar og perlar er það að vinna með stærðfræði. Þegar barnið er þjónn og leggur á borð ásamt starfsmanni kemur stærðfræði við sögu: hversu margir sitja við þetta borð? Hvað þarf þá marga gaffla, hnífa, skeiðar, diska, glös eða þess háttar. Í vali: hvað eru margir búnir að velja á undan þér? Er þá laust pláss? Og svo framvegis.   Í daglegu starfi á Stekk er markvisst unnið með stærðfræði með börnunum og þau þjálfuð í að öðlast tilfinningu fyrir tíma og rúmi.

 

Göngu- og vettvangsferðir                                                                                                                                     

Göngu- og vettvangsferðir eru m.a. farnar í hópastarfi. Tengjast þær gjarnan því þema sem er í gangi hverju sinni. Börnin eru æfð í þeim umferðarreglum sem þau þurfa að kunna til þess að vera þátttakendur í umferðinni á öruggan hátt. Einnig eru ferðirnar nýttar til að safna efnivið til skapandi starfs.

 

Það sem gott er að hafa í huga :

 • Að yfirfara töskur barnanna reglulega. Við mælum með því að fara yfir aukabúnað barnanna um hverja helgi. Ef barnið blotnar eða eitthvað kemur upp á að koma strax með ný aukaföt
 • Að leikskólinn er vinnustaður barnanna og þess vegna verða þau að vera klædd þannig að þau geti tekið þátt í öllu starfi deildarinnar.
 • Merkja allan fatnað. Þá aukast líkurnar á því að allt komist til skila.
 • Láta vita um allar fjarvistir barnsins eins og veikindi eða frí.
 • Að drepa á bílnum þegar þið komið með barnið í leikskólann, þannig minnkum við mengunina í umhverfi barnanna okkar
 • Vinsamleg tilmæli til ykkar foreldra að ganga í gegnum inngang þeirrar deildar sem ykkar barn dvelur á við komu og brottför, það kemur í veg fyrir óþarfa truflun í leik og starfi annarra barna í Vallarseli

 

Með von um gott samstarf

Íris, Gréta og Ása