Deildarnámskrá

lesa

Deildarnámsskrá Jaðars

Jaðar skólaárið 2017-2018

Árgangur 2014

 

Á Jaðar eru þriggja ára börn með breytilegan vistunartíma, frá 7 tímum upp í 9 tíma vistun.

Stöðugildi starfsmanna deildarinnar reiknast út frá fjölda barna ár hvert.

Kristjana Jóhannsdóttir  100% deildarstjóri

Salbjörg Reynisdóttir 100% Leikskólakennari

Guðrún Guðmundsdóttir 100% leikskólaliði

Áslaug Róbertsdóttir 85% leikskólakennari

 

 

Í Vallarseli er unnið samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla. Við vinnum samkvæmt nýjum þáttum Aðalnámskrár en þau eru heilbrigði og vellíðan, læsi og samskipti, sköpun og menning og sjálfbærni og vísindi. Í Vallarseli er samt sem áður lögð megináherlsa á tónlist, en þar spilar stóran þátt: söngur, taktur og hljóðfæri. Jafnhliða þessum námsþáttum stuðlum við að fjölmenningu, lýðræði og jafnrétti.

Meginmarkmið samkvæmt Aðalnámskrá eru m.a.

 •  að efla siðgæði og leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi
 •  að gefa börnum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta
 • að rækta tjáningar- og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt.

Athafnir daglegs lífs

Rauði þráðurinn í gegnum allt daglegt starf er að skapa öryggi hjá börnunum og að efla sjálfstæði þeirra.
Við komu og brottför er lögð áhersla á að hverju barni sé heilsað og það kvatt með nafni.  Mikilvægt er fyrir líðan hvers barns að það finni að það sé velkomið í leikskólann.

Í fataherbergi er lögð áhersla á að börnin læri að klæða sig úr og í sem mest sjálf.  Þau eru einnig hvött til þess að ganga snyrtilega frá fatnaði sínum og að hjálpa hvert öðru.  Þau fá þá aðstoð sem þörf er á en eru hvött á jákvæðan hátt til sjálfsbjargar.

Á salerni eru börnin hvött til þess að bjarga sér á sem mestan hátt sjálf, þau sem eru hætt með bleyju, en skipt er um bleyju á börnunum sem enn eru með bleyjur.

Þá eru börnin einnig hvött til þess að gæta fyllsta hreinlætis.

Hólf barnanna eru merkt með nafni, fæðingardegi barnsins og nöfnum foreldra.

 

Starf okkar á Jaðar

Heilbrigði og vellíðan

Við leggjum áherslu á jákvæða sjálfsmynd, andlega vellíðan, hreyfingu, næringu, hvíld, góð samskipti, öryggi og almennt hreinlæti og skilning á eigin tilfinningum og annarra.

Í útiveru erum við dugleg að fara út að leika en garðurinn býður upp á margvíslega hreyfingu og 4 x í viku eru hjól í boði.  Útivera er á hverjum degi og yfirleitt stendur börnunum til boða að fara út eftir hádegi.          Í útiveru er lögð áhersla á að börnin fái að leika sér á frjálslegan hátt án mikilla afskipta starfsfólks sem tekur þó þátt í leiknum ef svo ber undir.

Útileiksvæði leikskólans býður upp á fjölbreytta möguleika til allskonar hreyfileikja, bæði sjálfsprottinna og skipulagðra. Við ætlum að fara reglulega í gönguferðir um bæinn og heimsækja aðra leikvelli, skoða nánasta umhverfi ásamt því að fara yfir helstu umferðareglur.

Við förum 1 x í viku í hreyfing inni í sal þar sem hópnum er skipt í tvennt þ.e. frá 9-9:30 og 9:30-10:00 á þriðjudagöum. Þar verður lögð áhersla á grófhreyfingar. Börn hafa ríka þörf fyrir að hreyfa sig frjálst og óhindrað.  Öll hreyfing stuðlar að andlegri og líkamlegri vellíðan.

Í hádeginu er boðið upp á hollan, næringarríkan og fjölbreyttan  mat úr öllum fæðuflokkunum, við viljum að börnin smakki allan mat. Einnig er boðið upp á daglegar ávaxtastundir.

Við matarborðið er lögð áhersla á  góða borðsiði og að börnin geti bjargað sér að mestu við matarborðið.  Reynt er að nýta morgunmatinn, hádegisverðinn og kaffitímann sem rólega stund með börnunum, þar sem við njótum þess að borða og ræða málin. Ávaxtastundir eru hluti af daglegri rútínu okkar á deildinni og börnin fá sér ávöxt rétt áður en farið er í útiveru.

Í hvíld er boðið upp á svefn allt frá 45 mínútum upp í ca 2 klst eftir þörfum barnanna. Seinna meir þegar börnin hætta að sofa verða lestrarstundir í boði ásamt rólegum borðleikjum.

Reynt er að stuðla að góðum samskiptum milli allra í leikskólanum. Við viljum að börnin læri að bera virðingu hvert fyrir öðru og trúa á sjálfan sig og að það sé mikilvægt að eiga góð samskipti við alla t.d. að skiptast á og tala fallega við hvert annað.

Einnig að starfsfólkið beri virðingu fyrir börnunum og séu börnunum góðar fyrirmyndir, við viljum að börnin finni að þau geti leitað til allra starfsmannanna og að starfsfólkið sé alltaf til staðar. Við viljum að starfsfólk spyrji sig :“er ég örugglega búin að snerta við öllum börnunum á deildinni í dag!“.

Við viljum að foreldrar upplifi góð samskipti milli sín og starfsfólksins, að það sé gott upplýsingaflæði en þar er helst að minnast á viðburðardagatal, taflan, tölvupóstur og heimasíða deildarinnar. Einnig að foreldrar viti og finni að þeir geti leitað til starfsfólksins með þau málefni er varða börnin þeirra og þeirra velferð. Við viljum að foreldrar viti og finni að þeir séu ávallt velkomnir í skólann, bæði á skipulagða viðburði sem og á öðrum tímum.

Við reynum að fá börnin til að nota orð yfir tilfinningar sínar í samskiptum sín á milli og við fullorðna. Við styrkjum jákvæða hegðun barnanna með hrósum og hvatningu.

Við viljum að börnin læri að þvo sér um hendur fyrir og eftir máltíðir, þau nota smekk í morgunmat og hádegisverði. Þvo hendur eftir salernisferðir og útiveru og nota sápu eftir þörfum.

Í sambandi við að ýta undir almenna líkamsvitund barna syngjum við texta um líkamann, við notum líkamann sem hljóðfæri í ýmsum lögum, og í hreyfingu förum við í hreyfileiki þar sem við setjum orð á athafnir og líkamsheiti.

Læsi og samskipti

Markmið okkar í læsi og samskiptum er að börnin öðlist hæfni í að hlusta, skilja og tjá sig. Mikið er talað við börnin en málörvun barnanna er einn af rauðu þráðunum í gegnum okkar leikskólastarf. Við notum mikið myndrænt skipulag og tákn með tali (tmt) og reynum þannig að efla börnin til að tjá sig. Lesum fyrir börnin og kennum þeim kvæði og söngva.

Við kennum þeim mikilvægi þess að vera góð hvert við annað, að deila hlutum og skiptast á. Einnig að allir eiga að fá að vera með og skilja ekki útundan. Við hvetjum þau og hrósum fyrir þegar vel gengur og kennum þeim einnig mikilvægi þess að bíða, sitja kyrr og hlusta.

Daglega eflum við börnin í að hjálpa sér sjálf t.d. við að fara í og úr fötum, þvo sér, biðja um aðstoð og reynum að efla áhugasvið hvers og eins og leyfa barninu að blómstra í þeim þáttum sem þeim gengur vel með.

Börnin læra að leika sér með því að við leikum við þau og kennum þeim að vera með í leiknum og taka þátt og fara eftir reglum um hvað er viðeigandi og hvað ekki. Einnig reynum við að hvetja börnin til að velja sér leikfélaga og hvaða leikefni þau vilja vera með.

Sköpun og menning

Í öllu leikskólastarfi fer fram skapandi starf og er menning þar stór og mikilvægur þáttur. Börnin fá að búa til, uppgötva, njóta og örva þannig forvitni sína og áhuga. Í okkar starfi leggjum við mesta áherslu á tónlist.

Íslenskar hefðir eru í hávegum hafðar og við fögnum einnig menningu annarra þjóða og búum til aðstæður fyrir virkan og skapandi leik.

Daglega vinnum við með tónlistina, t.d. með börnunum, höfum skipulagða tónlistartíma og syngjum daglega. Samsöngur alls leikskólans er einu sinni í viku, við fáum hljóðfærakynningar og jóla og vorsýningar eru haldnar árlega. Börnin fá tækifæri til að leika á hljóðfæri í samverum, tónlistartímum og einnig öðru hvoru í daglegum söngstundum. Við notum líkamann sem hljóðfæri eins og áður segir og förum í hreyfi og tónlistarleiki. Við höldum upp á íslenskar hefðir og aðra merkisdaga og jafnvel vinnum með þjóðhátíðardag annarra þjóða og þá þeirra barna sem eru á leikskólanum. Við hvetjum einnig erlenda foreldra til þess að kynna fyrir okkur sína menningu með börnunum.

Á Vallarseli vinnum við markvisst með umferðarfræðslu, tannvernd og aðra viðburði. T.d. er horft á og hlustað á Karíus og Baktus og skoðaðar bækur tengdar tannvernd, litum myndir og syngjum lög. Við förum í gönguferðir þegar umferðarvikan er og kynnum börnunum fyrir umferðarmerkjum og reglum í umferðinni, vinnum ýmis verkefni tengd umferð og syngjum lög.

 Sjálfbærni og vísindi

Með sjálfbærni og vísindum erum við að hugsa um samspil umhverfisins, efnahag, samfélagið og velferð. Við berum virðingu fyrir lífríki jarðar og nýtingu náttúrunnar. Við byrjum á því að flokka og hendum ekki hverju sem er í hvaða rusl sem er. Förum út og týnum rusl og reynum að hafa fínt í kringum okkur og skemmum ekki blóm eða tré.

Við tökum mikið af myndum sem settar eru á facebooksíðu deildarinnar. Við horfum á viðburði sem börnin hafa tekið þátt, t.d. höfum við horft á jólasýninguna eftir á og haft kósý stund og borðum ís 🙂 

Fjölmenning í Vallarseli

Við vinnum í anda skóla án aðgreiningar en við viljum að þar ríki eining, samhugur og samvinna. Við leggjum áherslu á að þörfum hvers barns sé mætt á þeirra eigin forsendum þannig að þau nái að rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi. Við berum virðingu fyrir einstaklingnum og fögnum fjölbreytileikanum sem er innan hópsins.

Við viljum hafa upplýsingaflæðið eins gott og mögulegt er. Bjóðum upp á túlk í foreldraviðtölum fyrir þá sem þess óska. Viðburðardagatal er sýnilegt í fataklefanum, heimasíðan er auglýst vel og er aðgengileg fyrir alla foreldra. Netpóstur er sendur út reglulega til foreldra, notum upplýsingatöflu í fataklefa til að koma ýmsum skilaboðum til foreldra á framfæri er varðar leikskólann og starfið. Myndir af börnunum á deildinni eru sendar heim sem og myndir af starfsfólki deildarinnar. Við virðum skoðanir foreldra og öllum er gert jafn hátt undir höfði og foreldrum er sýnd þolinmæði og skilningur.

Lýðræði

Við viljum að börnin verði fullgildir þátttakendur í samfélagi leikskólans og að leikskólinn skuli vera lýðræðislegur vettvangur.

Við hvetjum til samvinnu og samstarfs milli barna, starfsfólks, foreldra og nærsamfélags. Við tökum tillit til áhuga hvers nemanda og leyfum hæfileikum hvers og eins að blómstra. Við stuðlum að frumkvæði, sjálfstæði og sjálfsöryggi. Börnin fá að koma fram í samveru og syngja fyrir hina í hópnum eða segja sögu eða brandara. Við viljum að barninu líði vel í hópnum og að það finni að það skipti máli.

Við tökum vel á móti börnum og foreldrum og kveðjum alla með nafni. Að börnin læri að hjálpa hvert öðru og hvetjum við þau til þess, t.d. í fataherbergi,           við matarborð, í samveru o.s.frv. Við viljum að börnin læri smám saman að leysa úr ágreiningi sín á milli. Við erum duglegar að hrósa börnunum og hvetjum þau til að gera sjálf.

Við kennum börnunum að allir eru jafn mikilvægir og börnin læra að það eru ákveðin mörk sem við förum ekki yfir, eins og t.d í samskiptum sínum við önnur börn og fleira.

Jafnrétti

Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta s.s aldurs, búsetu, fötlun, kyn, litarháttar, menningar trúarbragða, tungumáls og þjóðernis. Við leggjum áherslu á að drengir og stúlkur eigi sem jafnasta og víðtækasta möguleika og að hvergi í skólastarfinu, séu hindranir í vegi annars hvors kynsins. Við leggjum áherslu á að rækta hæfileika hvers og eins.

Við viljum að í leikskólanum séu allir vinir, allir eiga dótið saman. Við erum réttlátar, umburðarlyndar, víðsýnar og stuðlum að notalegu og rólegu umhverfi inni á deildinni þar sem allir finna að þeir eru velkomnir að njóta friðsældar og notalegrar nærveru okkar allra 🙂

Við kennum börnunum einnig að þótt við séum ólík að þá erum við öll jafn mikilvæg og leggjum rækt við sterku hliðar barnanna og kennum þeim að vera þau sjálf. Gefum öllum jafna athygli og ástúð.

Könnunarleikur og hópastarf

Könnunarleikurinn er 2x í viku en hvert barn fer 1x, í 5-6 barna hóp. Könnunarleikur byggist á því að börnin leika með allskonar hversdagslega hluti og ílát (ekki plastleikföng úr búðum). Þar fá börnin að vera “litlir vísinda-menn/konur” og uppgötva mismunandi eiginleika hlutanna með endalausum tilraunum.  Í þessum stundum starfa börnin af eigin hvötum án þess að fullorðnir stýri þeim.

Markmiðið með könnunarleik er:

 •       að leika sér í litlum hópi
 •       að börnin uppgötvi að möguleikar efniviðarins séu óþrjótandi
 •       að engin ein lausn sé rétt

 

Markmiðin með hópastarfi eru m.a.:

 •       að barnið læri að bera virðingu fyrir verkum og skoðunum sínum og annarra
 •       að stuðla að traustum og hlýjum samskiptum milli barnanna
 •       að hvetja barnið til þess að sýna öðrum virðingu og umburðarlyndi
 •       að örva hugmyndaflug barnsins og skapandi tjáningu
 •       að hvetja barnið til sáttfýsi og samvinnu
 •       að efla samstöðu og samvinnu í hópnum

Samvera

Farið er í samveru á hverjum degi, oft 2x á dag. Í samveru leggjum við áherslu á rólega stund þar sem við förum yfir daginn í dag, syngjum, förum í leiki, lærum tákn með tali og hlustum á ævintýri, á morgnana er einnig ávaxastund. Öll börnin sitja saman með starfsfólki og þjálfast þau í að hlusta og bíða eftir að röðin komi að þeim.

Markmiðið með samveru er að börnin læri að sitja kyrr og hlusta, taka þátt og læri að nota tákn með tali.

Fínhreyfingar

Þjálfun fínhreyfinga er mikilvæg fyrir samhæfingu augna og handa.

Hvað viljum við fá fram?

 •       að barnið nái færni í notkun á leir og öðrum efnivið (stöðuskyn)
 •       að barnið noti þvergrip
 •       að barnið borði með gaffli
 •       að barnið grípi stóran bolta með báðum höndum
 •       að barnið byggi turn úr 6-8 kubbum
 •       að barnið teikni hring eftir fyrirmynd
 •       að barnið byrji að klippa

Tónlist

Þar sem tónlistin er okkar sérstaða erum við með tónlistarstjóra en það er hún Áslaug.  Hún sér um kennslu einu sinni í viku og kennir börnum og starfsfólki. Hún þjálfar hjá okkur í hlustun, söng, næmni fyrir hryn og hljóðum og grunnhugtök í tónlist. Þá er farið í leiki sem byggjast  á tónlist og hreyfingu. Börnin fá að spila á hin margvíslegustu hljóðfæri. Unnið er með tónlistina í samverum og hópastarfi.

Hvað viljum við fá fram?

 •       að barnið öðlist næmni fyrir hljóðum, hreyfingu og hrynjanda
 •       að efla frumkvæði barnsins í sköpun, túlkun og tjáningu tónlistar
 •       að veita barninu tækifæri til að njóta tónlistar og tengja hana öðrum listformum s.s myndsköpun, dansi o.fl.

Viðfangsefni í tónlistarstarfi 3-4 ára leikskólabarna er:

Söngur:  Hreyfisöngvar.  Fjölbreytt val sönglaga sem tengjast gjarnan líkamanum og reynsluheimi barnanna.  Reynt er að tengja það því sem verið er að vinna með í leikskólanum (þema) hverju sinni.  Þulur og nafnaleikir.

Hlustun:  Leikir sem byggja á því að þekkja einföld hljóð og ólík.  Hlusta á tónlist, fjölbreytt tóndæmi sem gjarnan eru tengd hreyfingu á einhvern hátt.

Hljóðfæri:  Hreyfileikir af ýmsu tagi þar sem “líkamshljóð” (t.d. klapp og ásláttur á læri) eru notuð og/eða hljóðfæri.  Ásláttarhljóðfæri til að þjálfa tilfinningu fyrir púls og því að spila á slagverk í hópi.  Mikilvægt að kenna hvenær á að bíða og hvenær má spila (stoppleikir).

 

Einingakubbar

Í einingakubbum starfa börnin af eigin hvötum án þess að fullorðnir stýri þeim.  Kubbar eru skapandi efniviður og það sem börn byggja minnir oft á fyrirmyndir úr umhverfi þeirra, t.d. hús, bíll, flugvél o.s.frv.  Kubbabyggingar eru mikilvægar fyrir þróun vitsmunaþroskans. Í kubbaleik gefst gott tækifæri fyrir börn að endurskapa umhverfi sitt og þær hugmyndir sem þau hafa um það. Þessi hæfileiki til að upplifa og skapa er mikilvæg undirstaða afstæðrar hugsunar.  Hönnun kubbanna er stærðfræðilega rétt, því öðlast börn sem leika með þá skilning sem er grundvöllur rökrænnar hugsunar. Þau læra um stærð, lengd, form, fjölda, röðun, rými og þyngd þegar þau byggja úr kubbunum og við tiltekt eftir leikinn.

Markmið með einingakubbum eru:

 •       að börnin læri að leika sér í litlum hópi
 •       að efla rökhugsun
 •       að þjálfa rúmskynjun
 •       að efla sköpunargleði

 

Tákn með tali (TMT)

Tákn með tali (TMT) er tjáningarform ætlað heyrandi fólki sem á við mál- eða talörðugleika að stríða. Það byggist á samblandi af látbragði, táknum og tali.  Hér á Jaðar notum við tákn með tali  markvisst.     Börnin syngja lög með táknum.  Þau eru hvött til þess að nota TMT í daglegu starfi.  Dagskipulag okkar er líka táknað.  Sífellt er verið að finna nýjar leiðir til þess að koma TMT inn í starf okkar.

Markmiðið með vinnu með tákn með tali er: að börnin læri fleiri en eina boðskiptaleið

Málörvun

Í málörvun viljum við að barnið nái góðu valdi á íslenskri tungu og notkun málsins svo að það nýtist því á auðveldan hátt í öllum samskiptum.
Málörvun er fléttað inn í alla þætti leikskólastarfsins.

Hvað viljum við fá fram?

 •       að auka orðaforða og málskilning barnsins
 •       að barnið nái færni í að tjá sig á frjálslegan hátt
 •       að barnið læri virka hlustun
 •       að barnið geti svarað spurningum t.d ,,hvað ert þú að gera’’
 •       að barnið geti svarað ,,hvar’’ spurningu
 •       að barnið spyrji ,, hvað er þetta’’
 •       að barnið geti sagt til um kyn sitt
 •       að barnið rétti fleiri en 1 hlut þegar notuð er fleirtala

Myndsköpun

Börn á leikskólaaldri  hafa ríka þörf fyrir að tjá sig með myndmáli á skapandi hátt.  Börnin eiga að fá að teikna, mála og móta frjálst eftir eigin hugmyndum á sinn sérstæða hátt.  Leikskólanum ber að sjá börnunum fyrir fjölbreyttum efnivið til myndsköpunar og hvetja og leiðbeina án mikilla beinna afskipta.

Hvað viljum við fá fram?

 •       að örva sköpunarhæfni og gleði
 •       að örva hugmyndaflug og skapandi tjáningu
 •       að þjálfa samhæfingu augna og handa
 •       að barnið loki formum í krassteikningum
 •       að barnið læri að þekkja litina 

Val eftir áramót

Valið er rammi utan um frjálsa leikinn. Þar geta börnin valið sér þau svæði sem þau vilja leika sér á. Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og mikilvægasta náms- og þroskaleið allra barna. Í leik læra þau margt sem enginn getur kennt þeim. Ekki er alltaf boðið upp á sömu svæðin og reynt er að hafa fjölbreytt val hvað varðar efnivið og aðstöðu.

Markmiðin með vali eru m.a.:

 •       að hafa val um hvar leikið er og við hverja
 •       að leika sér í litlum hópi
 •       að velja sér efnivið við hæfi
 •       að börnin læri að bíða eftir að röðin komi að sér

 

 

Með von um gott samstarf

Kristjana, Sallý, Gunna og Áslaug