Vallarsel er elsti starfandi leikskólinn á Akranesi.
Vallarsel var tekinn í notkun 20.maí 1979 og verður því 40 ára í ár. Leikskólinn Vallarsel er 930,6 fermetrar með leikskólarými fyrir 143 börn samtímis.
Deildirnar eru 6 og heita: Skarð, Jaðar, Lundur, Stekkur, Hnúkur og Vellir en öll þessi nöfn vísa í umhverfi leikskólans.
Í leikskólanum Vallarseli hefur verið lögð aðaláhersla á tónlistarstarf með börnunum. Leikskólinn hafði starfandi tónlistarkennara sem hélt utan um tónlistarstarfið með öllum börnum leikskólans frá árunum 1998 – 2008. Fyrstu árin var starfið í höndum Bryndísar Bragadóttur en frá 2006-2008 var það í höndum Katrínar Valdísar Hjartardóttur. Haustið 2009 urðu þær breytingar að ekki var lengur starfandi tónlistakennari við leikskólann heldur er skipaður tónlistarstjóri á hverri deild sem sér um skipulagningu og framkvæmd á tónlistinni á sinni deild. Kennslan er þannig sett upp að unnið er í litlum hópum og breytilegt eftir aldri við hvaða viðfangsefni börnin kljást við. Líkt og gefur að skilja er unnið með einfaldari verkefni með yngstu börnunum en þau verða flóknari og flóknari eftir því sem börnin eru eldri. Tónlistarstarfið fer markvisst fram einu sinni í viku ásamt því að unnið er áfram með verkefnin inni á deildum.

Skapast hefur sú hefð að halda tónleika með elstu deild Vallarsels. Við leggjum mikinn metnað í tónleikana okkar og fer mikill undirbúningur í þá. Það kemur mörgum á óvart hversu langa og flókna texta börnin geta lært og sungið. Á svona tónleikum fylgir því að mikill agi þarf að vera á hópnum og vita allir hvað til þeirra er ætlast.

Elsti árgangur leikskólans tekur árlega þátt í Vökudögum á Akranesi. Í því tilefnu eru haldnir metnaðarfullir tónleikar og oftar en ekki hafa þeir verið unnir í samstarfi við aðra. Sem dæmi má nefna samstarf við Hljóm, kór eldri borgara, samstarf við barnakór Grundaskóla og svo margt fleira.© 2016 - 2019 Karellen